Frjómælingar í ágúst

11.09.2020
Háliðagras
Picture: Erling Ólafsson

Háliðagras.

Í ágúst var var mikið af frjókornum í lofti á Akureyri, talsvert meira en í meðalári, en í Garðabæ mældust frjókorn langt undir meðaltali. Grasfrjó geta mælst í september en ólíklega í miklu magni.

Á Akureyri var heildarfjöldi frjókorna í ágúst 1.259 frjó/m3, sem er töluvert yfir meðaltali, og voru þau samfellt í lofti allan mánuðinn. Grasfrjó voru langalgengust (92%) eða 1.164 frjó/m3. Aðrar helstu frjógerðir sem mældust í mánuðinum voru netlu-, elftingar- og súrufrjó.

Í Garðabæ mældist heildarfjöldi frjókorna 291 frjó/m3 sem er langt undir meðaltali. Frjókorn mældust þó í lofti alla daga nema einn, en í litlu magni. Grasfrjó voru algengust (76%) eða 220 frjó/m3 en aðrar helstu frjógerðir voru lyng- og súrufrjó en lítið mældist af þeim.

Grasfrjó geta mælst í september en ólíklega í miklu magni nema í sérlega góðu haustveðri.

Fréttatilkynning um frjómælingar í ágúst 2020 (pdf)