Samkomulag um Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík

22.09.2020
Borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Breiðdalssetur á Breiðdalsvík
Picture: Magnús Guðmundsson

Húsakynni borkjarnasafns Náttúrufræðistofnunar Íslands og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Breiðdalsvík.

Háskóli Íslands, Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands gerðu nýverið með sér samkomulag um rekstur rannsóknaseturs á sviði jarðfræði og málvísinda á Breiðdalsvík. Markmið samningsins er að efla rannsóknir í jarðfræði, einkum á Austurlandi, og auka hlut verkefna Náttúrufræðistofnunar Íslands sem unnin eru í landshlutanum.

Samningurinn sem um ræðir gildir til þriggja ára, frá 1. september 2020. Með honum er tryggð fjármögnun starfs verkefnisstjóra við nýtt Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Háskóli Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands munu skipta með sér til helminga öllum kostnaði vegna sameiginlegra verkefna við rannsóknasetrið, svo sem launakostnaði verkefnisstjóra og öðrum tilfallandi kostnaði. Skipting kostnaðar gildir ekki um verkefni sem unnin eru eingöngu á vegum annars aðila samningsins.

Starf verkefnisstjóra mun lúta að borkjarnasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands á Breiðdalsvík og fleiri verkefnum stofnunarinnar. Önnur verkefni munu lúta að þátttöku í verkefnum rannsóknasetursins, svo sem rannsóknaverkefnum, móttöku nemenda og hópa og öðrum verkefnum setursins. Búið er að auglýsa starf verkefnisstjórans og stefnt að ráðningu í október næstkomandi.