Vísindagrein um frjókornavöktun á Íslandi

26.03.2021
Frjógildra á þaki hússins Borga við Norðurslóð á Akureyri
Picture: Ewa Maria Przedpelska-Wasowicz

Frjógildra á þaki hússins Borga við Norðurslóð á Akureyri.

Birt hefur verið greinin „Characterisation of pollen seasons in Iceland based on long-term observations: 1988–2018“ í tímaritinu Aerobiologia. Hún fjallar um frjókornavöktun á Íslandi síðustu þrjá áratugi og eru höfundarnir starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur um árabil mælt fjölda frjókorna í andrúmslofti hér á landi og greint þau til tegunda með það að markmiði að afla upplýsinga um magn og tegundafjölbreytni. Í Reykjavík hófust talningar árið 1988 og á Akureyri 1998. Með verkefninu hefur safnast saman töluvert magn gagna og eru upplýsingar um frjókorn í lofti á Íslandi aðgengilegar á vef stofnunarinnar og á vef European Aeroallergen Network – EAN.

Hingað til hefur aðeins verið birt ein grein sem byggist á gögnum um frjókornamælingar á Íslandi og fjallaði hún um um nokkra þætti sem einkenna frjókornatímabil á Íslandi. Það var lögð áhersla á einn ofnæmisvaka, það er birkifrjókorn, og náðu gögnin til tíu ára tímabils (Margrét Hallsdóttir 1999. Birch pollen abundance in Reykjavík, Iceland. Grana 38(6): 368–373).

Í greininni sem nú hefur verið birt eru í fyrsta sinn teknar saman yfirgripsmiklar upplýsingar sem fengist hafa með frjókornavöktun á Íslandi sem staðið hefur yfir í rúmlega 30 ár. Gerðar voru víðtækar greiningar á gögnum sem safnast hafa frá því mælingar hófust, fjölbreytni frjókorna er lýst og fjallað um helstu tegundir ofnæmisfrjókorna sem skráðar hafa verið á Íslandi. Fjallað er nákvæmlega um einkenni frjótímabila helstu ofnæmisvaldandi plantna, langtímaþróun og árstíðabundna hringrás frjókorna. Ewa Maria Przedpelska-Wasowicz sérfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands stýrði stýrði verkefninu en meðhöfundar hennar að greininni eru Pawel Wasowicz, Aníta Ósk Áskelsdóttir, Ellý Renée Guðjohnsen og Margrét Hallsdóttir. Greinin mun nýtast vel sem upplýsingaheimild fyrir frjókornaspár en áætlað er að hefja birtingu slíkra spáa á Íslandi á þessu ári.