Spáð fyrir um frjókorn í andrúmslofti

26.04.2021
Ilmreyr
Picture: Erling Ólafsson

Ilmreyr.

Náttúrufræðistofnun Íslands birtir nú frjókornaspár fyrir Akureyri og höfuðborgarsvæðið. Við gerð spánna eru frjómælingagögn og nýjasta veðurspá notuð til að áætla hversu mikið af frjókornum má búast við næstu daga.

Fram til þessa hafa einungis verið birtar niðurstöður vikulegra frjómælinga, sem gefa hugmynd um magn frjókorna í andrúmslofti dagana og vikurnar á undan. Með birtingu frjókornaspár er stigið skref fram á við því með slíkum spám geta þeir sem þjást af frjóofnæmi forðast frjókorn þegar þau eru í mestu magni, tekið inn fyrirbyggjandi lyf, skipulagt útivist á þeim tímum sem frjókornagildi eru lág, forðast staði þar sem líklegt er að frjókorn séu í miklu magni og í verstu tilvikum að halda sig innandyra.

Í frjókornaspám er magni frjókorna skipt niður í flokkana: „ekkert“, „lítið“, „miðlungs“ og „hátt“. Spáin segir til um hvaða frjókorna má vænta í andrúmsloftinu og hver væntanleg þróun í fjölda þeirra er.

Frjókornaspár eru takmarkaðar því margar breytur geta haft áhrif á magn frjókorna í lofti, þar á meðal tími dags, skyndilegar veðurbreytingar og uppspretta frjókorna. Frjókorn í lofti geta ferðast um langa leið og fjöldi og samsetning þeirra getur verið mjög mismunandi á ólíkum stöðum. Árið 2021 verður notað sem nokkurs konar prufuár þar sem spáaðferðin er sannreynd.

Samsetning og fjöldi frjókorna getur haft mismunandi áhrif á einstaklinga eftir alvarleika ofnæmis og almennum heilsufarslegum aðstæðum. Engu að síður er meginmarkmið frjókornaspár að gera þeim sem þjást af frjóofnæmi kleift  að gera ráðstafanir til að vernda sig þegar frjókorn eru í miklu magni í lofti.

Frjókornaspárnar verða uppfærðar alla virka daga fram til septemberloka en þá lýkur frjótímabilinu hér á landi.

Frjómælingar