Fjöldi frjókorna undir meðaltali í vor

07.06.2021
Hangandi fræflar krækilyngs og frjókorn þeirra
Picture: Erling Ólafsson

Hangandi fræflar krækilyngs og frjókorn þeirra.

Frjómælingar hafa staðið yfir á Akureyri og í Garðabæ síðan 15. mars. Á báðum stöðum var fjöldi frjókorna undir meðallagi í vor.

Vorið var sólríkt, kalt og þurrt um allt land og tók gróður seint við sér. Það sýndi sig á fjölda frjókorna sem mældist í frjógildrum norðan og sunnan heiða.

Á Akureyri mældust 13 frjó/m3 í mars, aðallega elrifrjó. Í apríl mældust þar 42 frjó/m3 sem er nokkuð undir meðallagi, mest var af lyng- og víðifrjóum. Í maí mældist lítið af frjókornum fyrri hluta mánaðar en þegar gróður tók við sér undir lok mánaðar fjölgaði þeim til muna. Heildarfjöldinn þann mánuðinn reyndist þó aðeins 248 frjó/m3 sem er langt undir meðallagi. Aðallega var um að ræða víðifrjó, birkifrjó og lyngfrjó. Birkifrjókorn voru farin að berast út í andrúmsloftið undir lok maímánaðar og hefur þeim fjölgað hratt síðan. Þau mælast almennt í 2–4 vikur og munu því líklega mælast áfram í júní ef þannig viðrar. Síðustu viku mánaðarins fóru einnig að mælast örfá grasfrjó og má búast við aukningu á þeim í júní en aðalfrjótími grasa er í júlí og ágúst.

Í Garðabæ mældust einungis 8 frjó/m3 í mars og voru það elri-, lyng- og víðifrjó. Í apríl mældust alls 30 frjó/m3 sem er nokkuð undir meðallagi, mest var af lyng- og víðifrjóum. Í maí var heildarfjöldi frjókorna 167 frjó/m3 sem er einnig talsvert undir meðallagi. Mest mældist af lyngfrjóum. Óvenjulítið mældist af aspar- og birkifrjóum. Líkt og á Akureyri má búast við að birkifrjó mælist áfram í júní ef veðurskilyrði eru hagstæð.

Fréttatilkynning um frjómælingar í apríl og maí 2021 (pdf)