Ársfundur Náttúrufræðistofnunar Íslands

03.11.2021
Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands á ársfundi stofnunarinnar í Miðfirði í október 2021
Picture: Magnús Guðmundsson

Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands á ársfundi stofnunarinnar í Miðfirði í október 2021.

Ársfundur Náttúrufræðistofnunar Íslands var haldinn dagana 19.–20. október á Hótel Laugarbakka í Miðfirði. Að þessu sinni var um að ræða vinnufund þar sem rætt var um innra starf stofnunarinnar, unnið að stefnumótun nokkurra málaflokka og rætt samstarf á milli Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa.

Í upphafi fundar voru flutt ávörp. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra ræddi um störf og verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, meðal annars vöktun náttúruverndarsvæða og lykilþátta íslenskrar náttúru, vöktunarrannsóknir sem grunnur að sjálfbærri nýtingu, tillögur að svæðum á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár og mikilvægi rannsókna vegna náttúruvár samhliða loftslagsbreytingum. Þá nefndi hann möguleika í eflingu verkefna með auknu samstarfi stofnana, samþættingu og sameiningum stofnana. Þorkell Lindberg Þórarinsson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands fór yfir stöðu og tengsl stofnunarinnar og náttúrustofa landsins, sameiginleg verkefni og hvernig efla mætti það samstarf, ásamt því sem hann reifaði hugmyndir um helstu áhersluverkefni stofnunarinnar á komandi árum. Aðalsteinn Örn Snæþórsson fulltrúi náttúrustofa gaf yfirlit yfir náttúrustofur og verkefni þeirra og fjallaði um framtíðarsýn varðandi samstarf Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa.

Að loknum ávörpum voru umræður um samstarf Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa, meðal annars hvað varðar samstarf við rannsóknir og vöktun, samstarf um gagnagrunna og vísindasöfn og samlegð í rekstri. Þá fjölluðu vinnuhópar um vöktun og loftslagsbreytingar, jarðfræðikortlagningu, kortlagningu lífríkis, náttúruvernd, vísindasöfn, gagnagrunna og miðlun og var áhersla lögð á að móta tillögur að því hvert skal stefna í þeim efnum.

Ársskýrsla 2020