Vísindagrein um erfðabreytileika snarrótarpunts

11.01.2022
Snarrótarvist
Picture: Ásrún Elmarsdóttir

Snarrótarpuntur getur verið ráðandi tegund í gróðri. Snarrótarvist við Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá. 

Nýlega kom út grein í vísindatímaritinu Plant Systematics and Evolution sem fjallar um erfðabreytileika snarrótarpunts (Deschampsia cespitosa) í Evrópu og Asíu.  

Snarrótarpuntur (Deschampsia cespitosa) er grasategund sem vex víða á Íslandi en líka um allan heim. Tegundina er að finna í öllum heimsálfum, með ósamfelldri útbreiðslu um norðurhvel jarðar, suðurhluta Suður-Ameríku, Ástralíu og Suður-Afríku. Tegundin er mjög margbreytileg hvað ýmsa þætti varðar, svo sem form og vistfræðilegar aðstæður en einnig litningafjölda og stærð erfðamengis. Vegna þessa er hún mjög gott módel til að rannsaka hlutverk fjöllitnunar (það að hafa fleiri en tvo litninga af hverri gerð í kjarna) í samhengi við útbreiðslu og búsvæði.

Í rannsókninni sem greinin fjallar um var frumuflæðismæling notuð til að greina frá hvernig erfðamengisstærð og breytileiki á litnunarstigi margra stofna D. cespitosa tengist við útbreiðslumynstur tegundarinnar og einnig var kannað að hve miklu leyti litnunarstig tengist umhverfi og kynlausri æxlun.

Rannsóknir sem þessar, sem gerðar eru í samvinnu við vísindamenn frá mörgum löndum, hjálpa okkur að kynnast betur líffræðilegum fjölbreytileika á Íslandi en einnig að sjá hann í víðara samhengi og stuðla þannig að betri verndun hans.

Pawel Wasowicz, grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, tók þátt í rannsókninni.

Tengill á greinina: Genome size variation in Deschampsia cespitosa sensu lato (Poaceae) in Eurasia 

Kort sem sýnir dreifingu allra Deschampsia-sýna í Evrópu og Asíu sem notuð voru í rannsókninni.

Kort sem sýnir dreifingu allra Deschampsia-sýna í Evrópu og Asíu sem notuð voru í rannsókninni.