10. nóvember 2021. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir: Vistkerfi rakra húsa á Íslandi – innimygla í nærmynd

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Vistkerfi rakra húsa á Íslandi – innimygla í nærmynd“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 10. nóvember kl. 15:15.

Erindið verður flutt í fundarherbergi R262 á 2. hæð í rannsókna- og nýsköpunarhúsi við Háskólann á Akureyri í Borgum. Erindið verður einnig flutt í beinni útsendingu á Teams á netinu. 

Undanfarin 15 ár hafa sýni úr húsum verið rannsökuð á Náttúrufræðistofnun Íslands og kannað hvort í þeim yxu myglusveppir. Oftast voru þetta vel valin stykki úr byggingarefnum þar sem líklegt þótti að innimygla yxi, en stundum sýni tekin á ætisskálar, límband eða sýnatökupinna. Sveppirnir voru fyrst skoðaðir í víðsjá og síðan í smásjá og þeir greindir til ættkvíslar og þegar það var hægt, til tegundar.

Til að innimygla vaxi þarf hæfilegan raka. Raki getur þést úr innilofti, það getur lekið úr vatnslögnum og frá votrýmum hússins eða vatn komið að utan gegn um sprungur eða göt. Það tekur gró myglusveppa um það bil tvo sólarhringa að spíra en eftir þann tíma má búast við vexti innimyglu. Þegar mygla er í húsum þá mengar hún inniloftið af léttum efnasamböndum sem hún myndar, gróum og örsmáum sveppaögnum sem molna úr bæði lifandi og dauðum sveppum. Einnig leka ýmis efni út úr sveppþráðum þar sem þeir eru í byggingarefninu og menga þar með efnið sem sveppurinn vex í.

En þótt innimygla sé heilsuspillandi og geti valdið miklu tjóni þá eru þessir smásveppir oft einkar formfagrir, litskrúðugir og koma sífellt á óvart. En þeir eru ekki einir heldur eru þeir hluti af vistkerfi ásamt bakteríum og örsmáum smádýrum eins og mítlum og mordýrum sem lifa á myglunni. Svo geta heldur stærri dýr eins og parketlús og silfurskotta tekið þátt í þessu vistkerfi og koma stundum upp um tilvist þess. Stöku sinnum finnast örsmáir þráðormar og sveppir sem lifa á þeim í mjög blautu og illa förnu byggingarefni. Tegundasamsetning fer oftast töluvert eftir byggingarefnum og þykja sum þeirra ljúffengari en önnur. Svo eru sumir sveppir mjög algengir og birtast oft sem ríkjandi tegundir meðan aðrir sveppir hafa aðeins sést einstaka sinnum á þessum 15 árum.

Þegar farið var yfir tegundir innimyglu hérlendis þá voru þær yfir 100 talsins. Þó hefur ekki tekist að finna nafn á nokkrar þeirra. Það verður að teljast töluverð tegundafjölbreytni.

Fyrirlesturinn á Youtube

Myglusveppasýni á einangrunaræti
Picture: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Myglusveppasýni á einangrunaræti.

Þakviður með mygluflekkjum
Picture: Húseigandi

Þakviður með mygluflekkjum.