23. mars 2022. Pawel Wasowiz: Útbreiðsla stafafuru í Steinadal í Suðursveit

Pawel Wasowicz

Pawel Wasowicz grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Útbreiðsla stafafuru í Steinadal í Suðursveit “ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 23. mars 2022 kl. 15:15. Erindið verður flutt á ensku.

Stafafura er vinsælasta trjátegundin sem notuð er í íslenskri skógrækt. Hún á uppruna sinn í vesturhluta Bandaríkjanna og Kanada og ná náttúruleg heimkynni hennar frá Suðvestur-Alaska og Yukon til Utah, Colorado og Baja California í Mexíkó. Hún hefur verið flutt til Evrópu, Suður-Ameríku, Ástralíu og Nýja-Sjálands. Fyrstu heimildir um tilraunaræktun hennar eru frá Skandinavíu, Bretlandseyjum og Nýja-Sjálandi frá tímabilinu 1880–1930. Í Nýja-Sjálandi var hún flutt inn til viðarframleiðslu og jarðvegsverndunar. Í N-Evrópu varð hún fljótt mikið notuð vegna þess að hún gaf meiri uppskeru á flatarmálseiningu og óx hraðar en innlenda skógarfuran (Pinus sylvestris).

Steinadalur er sérlega fýsilegur kostur til að rannsaka útbreiðslu og áhrif stafafuru á annan gróður og hugsanlega ágengni tegundarinnar. Skógræktarsvæðið er vel afmarkað landfræðilega, saga skógræktar á svæðinu er vel þekkt sem og útbreiðsla, hæð og þéttleiki sjálfsáinnar stafafuru á svæðinu til ársins 2011. Þá er gróðurfar í Steinadal fjölbreytt, allt frá ógrónu landi í misgróið og þroskað gróðurfar, auk þess sem landslag er mjög fjölbreytt og þar er að finna flatlendi, jökulaura, fjalllendi og brekkur og víða eru leifar gróinna þykkra jarðvegslaga í dalnum.

Árið 2010 vann Hanna Björg Guðmundsdóttir B.Sc.-verkefni í Steinadal þar sem hún mat útbreiðslu stafafuru. Niðurstöður hennar sýndu stóraukna útbreiðslu sjálfsáinna stafafuruplantna auk vísbendinga um neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni svæðisins. Rannsóknir á útbreiðslu og þéttleika furunnar voru endurteknar nú, áratug eftir rannsókn Hönnu Bjargar. Fyrir utan rannsóknir á útbreiðslu stafafuru skortir kerfisbundnar rannsóknir á tegundaauðgi og tegundafjölbreytni plantna á svæðinu og þar með möguleika á að meta hvort stafafura gæti verið ágeng planta eða ekki í íslensku umhverfi.

Rannsóknir í Steinadal voru styrktar úr Kvískerjasjóð árið 2021.

Athugið að Hrafnaþing verður að þessu sinni haldið í fundarherbergi R262 á 2. hæð í rannsókna- og nýsköpunarhúsi við Háskólann á Akureyri í Borgum.

Fyrirlesturinn á Youtube

Stafafura í Steinadal, Suðursveit
Picture: Guðrún Óskarsdóttir

Stafafura í Steinadal, Suðursveit.