Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi

Vísindanefnd um loftslagsbreytingar var skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra árið 2014 og var henni ætlað að taka saman rannsóknir um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi, um súrnun sjávar og einnig um stöðu og þörf á aðlögun að loftslagsbreytingum. Áður höfðu tvær sambærilegar skýrslur verið unnar að beiðni ráðuneytisins og komu þær út árið 2000 og 2008.

Nýja skýrslan er heldur ítarlegri en fyrri skýrslur vísindanefndar. Í henni er fjallað nákvæmlegar um súrnun sjávar, sjávarstöðubreytingar, áhrif loftslagsbreytinga á náttúruvá, samfélagslega innviði og nauðsynlega aðlögun vegna þessa. Einnig eru upplýsingar um hlýnun síðustu áratuga og áhrif hennar á náttúrufar á landi og í hafinu umhverfis það.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók á móti fyrsta eintakinu og sagði við það tilefni að skýrslan myndi nýtast stjórnvöldum í starfi, til dæmis við fræðslu, eflingu vöktunar og aðlögun að loftslagsbreytingum.

Veðurstofa Íslands leiddi verkefnið en að gerð skýrslunnar unnu einnig sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands. Í skýrslunni er einnig byggt á efni frá öðrum stofnunum og vísindamönnum.

Samantekt um skýrsluna

Skýrslan í heild Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi (pdf)