Hnoðaköngulóarætt (Lycosidae)

Almennt

Í heiminum er um 2.300 tegundir þekktar af yfir 100 ættkvíslum. Í Evrópu er tegundirnar 263 skráðar í 26 ættkvíslum.

Þess má þess geta til fróðleiks að í ættinni er hin eina sanna tarantúla (Lycosa tarantula) sem finnst í Suður-Evrópu. Sú goðsögn fylgdi tegundinni að eituráhrif bita af hennar völdum gerðu það að verkum fórnarlömbin upphófu trylltan dans, sem síðar var sagður er upphaf hins alkunna þjóðardans Spánverja, tarantella. Enginn fótur er fyrir þessum áhrifum bitanna. Fræðiheitið sitt dró tegundin af borginni Taranto á Ítalíu. Alþýðuheitið tarantúla færðist síðar yfir á ógnandi, risastórar, loðnar köngulær af ættinni Tharaphosidae sem hýsir um 930 tegundir á suðurhelmingi jarðar og mörgum þykja ófrýnilegar.

Hnoðaköngulær eru sterbyggðar veiðiklær, snarar í snúningum með einkar gott sjónskyn. Þær ýmist læðast að bráðinni, spretta eftir henni eða bíða þess að hún birtist fyrir framan holumynni þar sem þær leynast. Köngulærnar eru breytilegar að stærð, allt frá meðalstórum til stórra, bollengd 10-35 mm. Augun eru í þrem röðum framan á höfuðbolnum, neðst fjögur lítil augu, þar fyrir ofan tvö stór, og tvö millistór í efstu röð. Stóru augun  einkenna ættina frá öðrum áþekkum ættum. Þetta fyrirkomulag tryggir þeim mjög góða sjón til veiðanna, eina þá bestu meðal köngulóa. Auk þess hafa þær mjög næmt snertiskyn.

Litur hnoðaköngulóa er einfaldur, brúnn til svartur, stundum með ljósari rákum á höfuðbol til að leynast sem best á jörðinni en þær eru jarðbundnar. Sumar hafast við mestan sinn tíma í göngum í sverði eða jarðvegi. Aðrar eru á sífelldum þönum og eiga það til að þvælast inn fyrir húsdyr þegar haustar.

Hnoðaköngulær spinna silkipoka utan um egg sín og festa hann tryggilega við spunavörturnar. Engin önnur ætt fer þannig að. Til að draga hann ekki eftir sér lyfta þær bolnum upp. Það dregur ekki úr hæfni þeirra til veiða. Meðferð ungviðis er líka einstök, en um leið og það klekkst úr eggjasekknum skríður það upp fætur móðurinnar og safnast saman í hnapp ofan á afturbol hennar.

Hnoðaköngulær finnast mjög víða og við fjölbreytilega skilyrði enda dreifist ungviðið léttilega á svifþráðum. Þær eru mikilvægar í vistkerfum og eiga sinn þátt í að viðhalda jafnvægi í samfélögum smádýranna. Hnoðaköngulær eru langlífar og geta lifað allt að áratug.

Bit hnoðaköngulóa eru öllu jafna meinlaus en tegundir finnast þó þar sem eituráhrifa gætir af bitunum. Í ættinni eru tegundir sem geta orsaka sviða og kláða. Einnig geta bit valdið dauða húðfrumna sem taka að meltast undan safanum. Vel má finna fyrir því þegar íslenskar tegundir bíta varla varða áhrifin alvarlegri.

Á Íslandi finnast fimm tegundir en fleiri tegunda hefur verið getið héðan sem ekki hefur tekist staðfesta á seinni tímum. Hefur þeim því verið hafnað.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |