Barkartítla (Ernobius mollis)

Barkartítla - Ernobius mollis
Picture: Erling Ólafsson
Barkartítla. 5,5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Upprunnin í Evrasíu, hefur borist víða um heim en á erfitt uppdráttar í hitabeltinu. Fer í Skandinavíu norður til suðurhluta Lapplands; finnst sem slæðingur á Grænlandi.

Ísland: Nokkrir gamlir fundarstaðir á höfuðborgarsvæðinu, í Vestmannaeyjum, á Sauðarkróki og í Jökuldal á Austurlandi. Í seinni tíð hefur tegundin enn fundist í Reykjavík og Hafnarfirði, einnig á Akureyri og Fáskrúðsfirði.

Lífshættir

Barkartítla lifir í viði eins og ættinginn hennar illræmdi, veggjatítlan (Anobium punctatum). Hún er þó ekki eins illræmd þar sem hún finnst einungis grunnt undir berki á barkklæddum viði.

Kvendýr verpir í kringum 20 eggjum á börkinn og klekjast þau að 10–20 dögum liðnum. Lirfurnar byrja á því að éta eggskurnina og fá með því móti í sig örverur sem nauðsynlegar eru til að geta melt við. Nokkrum dögum síðar naga þær sig í gegnum börkinn og koma sér fyrir í vaxtarlaginu á milli barkar og viðar. Þar halda þær sig þaðan í frá og nærast á innsta lagi barkarins og viði sem er að byggjast upp í vaxtarlaginu. Dýpra inn í viðinn fara þær ekki. Þær lifa einungis í viði sem ekki hefur verið barkhreinsaður. Lirfur sem klekjast snemma sumars halda áfram að athafna sig yfir veturinn en hinar síðbúnari taka sér vetrarhvíld. Fullvaxnar lirfur grafa sér holrými í berkinum eða yst í viðnum til að púpa sig þar. Púpustigið varir í um tíu daga. Aðeins er um að ræða eina kynslóð á ári.

Almennt

Barkartítla er að öllum líkindum viðloðandi hérlendis en án efa fágæt. Í safni Náttúrufræðistofnunar er varðveitt eintak sem fannst í Reykjavík árið 1920 svo tegundin er ekki ný af nálinni hér. E.t.v. var hún algengari fyrr á árum en nú. Einnig má gera ráð fyrir að hún berist hingað af og til með innfluttum barkklæddum viði. Þó barkartítla lifi í viði húsa er hún ekki líkleg til að valda miklum skaða sökum þess hve grunnt hún grefur sig. Líkast til á hún auðveldast uppdráttar í þökum húsa, sem hitna undir bárujárni á sumrin. Bjöllurnar geta einna helst valdið skemmdum með því að gata þakpappa, sem þar með verður lekur. Ef barkartítla uppgötvast í húsum skal kanna hvar viður með berki hefur verið notaður, reyna að barkhreinsa hann og bera síðan á viðarvörn ósparlega.

Barktítla er töluvert frábrugðin veggjatítlu og auðgreind frá henni. Hún er að jafnaði nokkuð stærri, rauðbrún á lit, skelin nokkuð gljáandi, þakin stuttum og fíngerðum hárum. Hálsskjöldur er einfaldur, hvelfdur, lítillega uppsveigður til hliðanna. Fálmarar eru langir og grannir, endaliðirnir þrír einkar langir.

Barkartítla (Ernobius mollis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Barkartítla (Ernobius mollis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Fauna Europaea. Ernobius mollis. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=100113 [skoðað 20.7.2011]

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |