Brauðtítla (Stegobium paniceum)

Brauðtítla - Stegobium paniceum
Picture: Erling Ólafsson
Brauðtítla, 3 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Finnst um veröld víða, í öllum heimsálfum að Suðurskautslandinu undanskildu.

Ísland: Nokkuð algeng á höfuðborgarsvæðinu; einnig fundin á Akranesi, Patreksfirði, Akureyri, Selfossi og í Sandgerði.

Lífshættir

Brauðtítla lifir hér alfarið innanhúss. Hennar verður mest vart frá hausti og fram til vors, en síður á sumrin. Að öllum líkindum tengist það minni viðveru heimilisfólks á sumrin og sömuleiðis minni áherslu á eldhússtörf á þeim árstíma en að vetri til.

Bjöllurnar makast um leið og þær skríða úr púpum, varp hefst fáeinum dögum síðar og stendur yfir í u.þ.b. 20 daga. Á varptímanum verpir kvendýr um 100 eggjum í fæðuvöruna eða rifur og sprungur í hirslunum. Að varpi loknu kemur kerlan fram í dagsljósið og flýgur gjarnan út í glugga. Kjöraðstæður brauðtítlu eru við 25–28°C hita og 45% raka. Við þær aðstæður klekjast eggin eftir níu daga. Lirfurnar eru mjög kvikar og skríða um í fæðunni af krafti. Litlu lirfurnar þröngva sér auðveldlega ofan í rifur og sprungur, geta dulist þar og þolað sult í um átta daga og sloppið þannig undan þrifaklútum. Í meltingarvegi lirfanna eru gerlar sem framleiða B-vítamín og gerir það lirfunum kleift að éta tiltölulega næringarsnauða fæðu. Við kjöraðstæður þroskast lirfan á tæpum tveim mánuðum. Fullvaxin byggir hún um sig hjúp úr kornum úr fæðunni sem hún límir saman með munnvatni og púpar sig inni í honum. Við kjöraðstæður skríða bjöllur úr púpum að níu dögum liðnum. Brauðtítla þrífst ágætlega nokkuð niður fyrir hefðbundinn stofuhita en þroskatíminn lengist eftir því sem kólnar. Undir 17°C stöðvast þroskaferlið alveg. Öll þroskastig drepast örugglega á vikutíma við -10°C.

Brauðtítla nærist á margskonar vörum bæði plöntukyns og dýrakyns og spillir þeim. Þurrt kornmeti er í fyrirrúmi, s.s. kex, skorpur og hart brauð. Hún leggst einnig á kryddvörur og jafnvel eitruð lyf. Hún getur auk þess nagað ull, hár, leður og horn og gætt sér á múmíum í söfnum. Einnig getur hún skemmt bækur og jafnvel nagað sig í gegnum álpappír. Fullorðnar bjöllur nærast ekki.

Almennt

Brauðtítla fór ekki að verða áberandi í híbýlum hér á landi fyrr en líða tók á síðustu öld. Mestar líkur eru á að hún nái sér á strik í grófri kornvöru sem staðið hefur lengi óhreyfð í myrkri skúffu eða skáp. Bjöllurnar eru kvikar og fljótar að dreifa sér um matvöruhirslur enda vel fleygar. Besta vörnin er að geyma vörur í lokuðum ílátum.

Brauðtítla er náinn ættingi veggjatítlu (Anobium punctatum) og áþekk henni í útliti. Hún er þó hlutfallslega styttri. Brauðtítla er lítil bjalla, einlit rauðbrún með þéttum, stuttum, gulum hárum á öllu yfirborðinu. Langsum eftir skjaldvængjum eru áberandi punktaraðir. Fálmarar eru með þrem stórum endaliðum sem saman eru um helmingur af heildarlengd fálmaranna. Lirfurnar eru hvítar og krepptar, nær fótalausar með rauðbrúnan haus. Þegar þær naga sig inn í stór korn, eins og hnetur og möndlur, myndast göt áþekk klakgötum veggjatítlunnar á viði. Tóbakstítla (Lasioderma serricorne) er mjög svipuð brauðtítlu að sköpulagi en tegundirnar má þekkja í sundur á ólíkum fálmurum.

Brauðtítla (Stegobium paniceum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Brauðtítla (Stegobium paniceum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |