Gullsmiður (Amara quenseli)

Gullsmiður - Amara quenseli
Picture: Erling Ólafsson
Gullsmiður. 7 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðanvert norðurhvel. N-Evrópa til Svalbarða, fjalllendi M-Evrópu; á norðurslóðum einkum í fjalllendi en með sjávarströndum sunnar. Síbería, Kanada, Alaska.

Ísland: Algengur um land allt, jafnt á láglendi sem hálendi, frá sjávarströndum til hæstu fjalla.

Lífshættir

Gullsmiður er dæmigerð bersvæðistegund, finnst á söndum og melum þar sem gróðurþekja er lítil og gróður rýr. Opin gróðurlendi með blóðbergi og sendnum jarðvegi eru eftirsótt. Gullsmiður felur sig að degi til og er því einkum á ferli að næturlagi. Hann veiðir önnur smádýr sér til lífsviðurværis og nagar einnig plöntur og fræ. Þroskatími tekur a.m.k. tvö ár og brúa lirfur vetrartímann. Fullorðnar bjöllur hafa sést á ferli á tímabilinu frá byrjun maí og fram yfir miðjan nóvember.

Almennt

Gullsmiður er mjög algeng tegund hér á landi enda kjörlendi hans víða að finna í íslenskri náttúru, sendnar sjávarstrendur, fjallamelar og vikrar á eldvirkum svæðum. Í Evrópu eru gullsmiðir fleygir nema í fjalllendi sunnan til í álfunni en bjöllur þar hafa stutta vængi. Í Ameríku er vænglengd breytileg og eru sumar bjöllurnar fleygar en aðrar ekki. Flugvængir á íslenskum gullsmiðum eru ekki af fullri lengd og duga að öllum líkindum ekki til flugs. Þrátt fyrir það barst gullsmiður snemma suður í haf til Surtseyjar og hefur e.t.v. verið með fyrstu bjöllum til að nema þar land. Þar er hann algengur á lítt grónu yfirborði.

Gullsmiður er meðalstór smiður, frekar fótastuttur, svartur með sanseraða áferð en á hann slær grænleitum, bláleitum eða fjólubláum gljáa eftir því hvernig ljós fellur á skelina.

Gullsmiður (Amara quenseli) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Gullsmiður (Amara quenseli) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson 1982. The Status of the land-arthropod fauna on Surtsey, Iceland, in summer 1981. Surtsey Res. Progr. Report 9: 68–72.

Erling Ólafsson & María Ingimarsdóttir 2009. The land-invertebrate fauna on Surtsey during 2002–2006. Surtsey Research 12: 113–128.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Lindroth, C.H., 1985. The Carabidae (Coleoptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 15, part 1. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd, Leiden, Kaupmannahöfn. 225 bls.

Lindroth, C.H., H. Andersson, Högni Böðvarsson & Sigurður H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The Development of a New Fauna, 1963–1970. Terrestrial Invertebrates. Ent. scand. Suppl. 5. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 280 bls.

Luff, M.L. 1993. The Carabidae (Coleoptera) larvae of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 27. E.J. Brill. Leiden, New York, Köln. 186 bls.

Majka, C.G. 2008. The distribution, Zoogeography, and composition of Prince Edward Island Carabidae (Coleoptera). Can. Entomol. 140: 128–141.

Nelson, R.E. 2001. Bioclimatic Implications and Distribution Patterns of the Modern Ground Beetle Fauna (Insecta: Coleoptera: Carabidae) of the Arctic Slope of Alaska, U.S.A. Arctic 54:425–430.

Strømme, J.A., T.W. Ngari & K.E. Zachariassen 2007. Polar Reserach 4: 199–204.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |