Laufbjallnaætt (Chrysomelidae)

Almennt

Laufbjallnaætt hýsir 35.000 þekktar tegundir í heiminum og er það örugglega vanáætluð tala. Lengi var við lýði ertubjallnaætt (Bruchidae) með tegundum sem höfðu sérhæft sig á ertur af ýmsu tagi, alvarlegir skaðvaldar í slíkri matvöru. Þó ertubjöllur skeri sig vel frá hefðbundnum laufbjöllum hafa þær verið færðar undir laufbjallnaætt sem undirætt (Bruchinae).

Laufbjöllur eru litlar til meðalstórar (1-18 mm)og verður þeim ekki auðveldlega lýst. Þær eru oft egglaga, hvelfdar, stundum lengri. Margar eru litskrúðugar, grænar, bláar, rauðar, gular, oft gljáandi, hágljáandi, með málmgljáa, stundum marglitar, mikil augnakonfekt. Annars þarf að horfa til margra útlitseinkenna og púsla þeim saman til að greina laufbjöllur. Þær eru skyldar trjábukkum og er stundum erfitt að skilja litlar tegundir þeirra frá laufbjöllum. Laufbjöllur hafa fótformúluna 4-4-4, en það merkir að fótliðir eru fjórir (endaliðir, tarsi) á öllum fótum. Laufbjöllur eru alfarið plöntuætur. Bæði fullorðnar og lirfur éta vefi plantna. Margar eru alvarlegir skaðvaldar í ræktun matjurta svo og á öðrum plöntum.

Á Íslandi hafa fundist 13 tegundir af laufbjallnaætt, þar af fjórar af undirætt ertubjallna. Íslenskar nafngiftir héldust óbreyttar þó ertubjöllur færðust undir sama hatt og hefðbundnar laufbjöllur. Ertubjöllurnar heita áfram –kyrnur, hinar –glyttur. Fimm tegundir glyttna lifa utanhúss. Aðrar tegundir eru innfluttar, hafa borist með innfluttum matvörum. Stundum hafa kyrnur náð tímabundinni fótfestu. Þær eiga þó erfitt uppdráttar í heimahúsum svo sérhæfðar sem þær eru að lifa einvörðungu á völdum baunum eða ertum. En stundum kaupir fólk sýktar baunir og situr uppi með bjöllur tímabundið á heimilum sínu.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |