Asparglytta (Phratora vitellinae)

Distribution

Norður- og Mið-Evrópa suður á norðanverðan Balkanskaga

Ísland: Suðvesturland, frá höfuðborgarsvæðinu upp í Kjós, austur að Laugarvatni og Hellu, einnig Skaftafell.

Life styles

Asparglytta finnst í skógum og görðum með þéttvöxnum öspum (Populus) og víðitrjám (Salix). Fullorðnar bjöllur taka að vakna af vetrardvala upp úr miðjum apríl og safnast saman á stofnum og greinum aspa og víðitrjáa. Þær ná mestum fjölda í júní og taka strax til við að éta laufblöðin þegar brum opnast. Þær kjósa ný blöð á greinaendum. Eftir að bjöllurnar hafa byggt sig upp í um vikutíma fer mökun fram og viku síðar fara kvendýrin að verpa á þroskaðri laufblöðin sem lirfurnar nýta. Samkeppni um fæðu er því lítil á milli lirfa og bjallna og hýsilplantan vel nýtt. Lirfurnar raða sér gjarnan saman hlið við hlið, skríða áfram í hersingu og spæna í sig mjúka vefi laufblaðsins. Þær vaxa upp á tveim til þrem vikum, láta sig síðan falla til jarðar og púpa sig eftir nokkra daga í hulstri sem þær byggja um sig. Púpustigið varir í um átta daga. Ný kynslóð bjallna klekst. Í Evrópu geta þrjár kynslóðir þroskast yfir sumarið. Ekki er kunnugt um fjölda kynslóða hér á landi, en fullorðnar bjöllur finnast á ferli allt sumarið og fram yfir miðjan október. Þá leggjast þær í dvala, gjarnan undir trjáberki eða hvar sem skjól er að finna. Lirfurnar verða sér úti um vörn gegn rán- og sníkjudýrum með því að taka til sín sykrur úr fæðuplöntunni (einkum salicin og salicortin) og umbreyta þeim í salicylaldehyð sem er eitrað. Efnið á skylt við aspirín.

In General

Asparglytta er nýlegur landnemi á Íslandi sem fannst fyrst með vissu í ágúst 2005 í trjárækt Skógræktar ríkisins að Mógilsá í Kollafirði. Sumarið eftir hafði henni fjölgað mjög og óheyrilega 2007 svo stórsá á trjágróðri. Mikill skaði varð á alaskaösp (P. trichocarpa) og ýmsum tegundum víðis (Salix). Sama sumar fannst tegundin í Mosfellsbæ og austast í Reykjavík ári síðar. Allt höfuðborgarsvæðið varð síðan undir svo og Kjós. Smám saman barst asparglyttan austur fyrir fjall og er orðin algeng allt til Laugarvatns og var staðfest á Hellu sumarið 2018.  Það sama sumar fannst hún óvænt í þjóðgarðinum í Skaftafelli. Þangað gæti hún auðveldlega hafa borist með farartækjum gesta þjóðgarðsins. Hér er á ferðinni óæskileg meinsemd á öspum og víði sem án efa mun stinga sér niður víðar á komandi árum. Hún er ekki háð görðum okkar því villtur víðir dugar henni ágætlega til framfæris. Asparglytta er vinsælt rannsóknarefni evrópskra fræðimanna.

.

Distribution map

Images

References

Urban, J. 2006. Occurrence, development and economic importance of Phratora (= Phyllodecta) vitellinae (L.) (Coleoptera, Chrysomelidae). J. For. Sci. 52: 357–385.

Author

Erling Ólafsson, 14. ágúst 2009, 7. ágúst 2018.

Biota

Tegund (Species)
Asparglytta (Phratora vitellinae)