Ranabjallnaætt (Curculionidae)

Hélukeppur - Otiorhynchus nodosus
Picture: Erling Ólafsson
Hélukeppur (Otiorhynchus nodosus) er dæmigerð algeng íslensk ranabjalla, með grófgerðan rana og hnébeygða fálmara.

Almennt

Ætt ranabjallna er ein tegundaríkasta ættin í dýraríkinu, en þekktar eru um 86.100 tegundir í heiminum. Fræðiheitið Curculio er komið úr latínu og merkir einfaldlega ʼnokkurs konar ranabjallaʽ. Flokkunarfræði ranabjallna er afar flókin og sýnist sitt hverjum um raunverulega stöðu sumra af yfir 20 undirættum, hvort þær verðskuldi jafnvel að teljast fullgildar ættir. Ranabjöllur eru afar fjölbreytilegar að gerð. Þó aðaleinkenni þeirra sé ranamyndað höfuð þá er það ekki alltaf svo einfalt. Sumar hafa langan mjóan rana og þykja því dæmigerðar, aðrar hafa stuttan breiðan rana og enn aðrar engan rana. Höfuð sumra tegundanna er lagað að því að gagnast þeim við að grafa sig inni í viði trjáa. Þar eru tegundir sem hafa verið kallaðar prentarar, af undirættinni Scolytinae sem til skammst tíma taldist fullgild ætt eða þar til nútíma genarannsóknir gáfu annað til kynna.

Ranabjöllur eru sjaldan stórvaxnar, algengastar á bilinu 3-10 mm. Þær eru jafnan sterkbyggðar og grófgerðar, oft með mjög harða skel, margar stuttar háar og kúptar, egglaga, sumar þó öðruvísi skapaðar en fjölbreytileikinn er mikill. Þó flestar séu einfaldlega svartar eða brúnar þá finnast einnig afar litskrúðugar tegundir, hreinustu skartgripir. Auk ranans eru ranabjöllur með einkennandi fálmara en þeir hafa langan staflaga fyrsta lið sem hnébeygist þar sem stuttir liðir taka við. Endaliðirnir mynda breiðari kólf eða kúlu. Yfirleitt eru ranabjöllur hægfara. Þær eru plöntuætur, fullorðnar naga gjarnan laufblöð, brum og trjábörk en fótalausar lirfur éta rætur. Sumar lirfur þroskast inni í vefjum plantna eða í fræjum. Í ættinni leynast fjölmargir skæðir skaðvaldar á plöntum, í ræktun matjurta og skrautjurta, einnig í kornvörum af ýmsu tagi.

Á Íslandi hafa fundist 37 nafngreindar tegundir ranabjallna en 18 þeirra lifa villtar í náttúru og görðum. Þrjár finnast reglulega innanhúss, ýmist á stofulómum eða í kornmat. Fimmtán tegundir teljast slæðingar með innfluttum varningi.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |