Brunnklukka (Agabus bipustulatus)

Brunnklukka - Agabus bipustulatus
Picture: Erling Ólafsson
Brunnklukka. 9 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, austur um Miðausturlönd og norðurhluta Asíu allt til Kyrrahafs, einnig Afríka.

Ísland: Útbreidd og nokkuð algeng um land allt.

Lífshættir

Brunnklukka lifir og hrærist í vatni, jafnt litlum pollum, lindum, tjörnum og stærri vötnum, einnig í lygnum við ár- og lækjarbakka og hægrennandi vatni, í gróðurríkum tjörnum og gróðursnauðum pollum við jökulsporða, frá sjávarströndum til fjalla. Hún finnst því nánast hvarvetna þar sem hún kemst í vatn svo fremi sem það stendur nokkuð kyrrt. Kýs þó kalt vatn fram yfir heitar laugar en finnst samt í volgrum. Bæði lirfur og fullorðnar klukkur halda sig í vatni og hvoru tveggja lifa á ránum. Lirfur vaxa flestar upp frá miðju sumri og fram á haustið. Fullvaxnar skríða þær upp á vatnsbakka og púpa sig þar í jörðu. Fullorðnar bjöllur sjást allt árið á ferli þar sem vatn helst opið. Annars liggur brunnklukka vetrardvalann á fullorðinsstigi og sennilega að einhverju leyti líka á síðasta þroskastigi lirfu. Brunnklukka er vel fleyg og dreifist auðveldlega með því að skríða upp úr vatni og stíga til flugs á góðviðrisdögum. Ef fljúgandi brunnklukkur merkja endurvarp af vatnsyfirborði taka þær dýfur niður og stinga sér til sunds. Stundum villa gljábónaðir bílar fyrir og klukkurnar fá þá harða lendingu á blikkinu.

Almennt

Hvert mannsbarn kannast við brunnklukkur ef ekki af eigin raun þá af afspurn. Sú trú var útbreidd á árum áður að brunnklukkur gætu verið varhugaverðar og börn skyldu gæta sín á þeim. Þær ættu það til að fljúga upp úr tjörnum og upp í munn. Þaðan skriðu þær niður í „maga“ og ætu lifrina. Það eitt ráð væri til varnar að gleypa jötunuxa sem myndi drepa brunnklukkuna. Þetta ferli allt var skelfileg tilhugsun og börn gættu þess gjarnan dyggilega að hafa lokaðan munninn þegar horft var ofan í poll eða hornsílaveiðar stundaðar. Hvernig varð slík þjóðtrú til? Það má hugsa sér að foreldrar hafi gripið til lygasögunnar til að fæla börn sín frá hættulegum mógröfum sem voru sannar dauðagildrur. Til eru fleiri útgáfur af þessari ógnarsögu. Það má öllum ljóst vera að fyrir þessu er enginn fótur.

Brunnklukka er auðþekkt, næststærst vatnabjallna hérlendis, minni og dekkri en fjallaklukka (Colymbetes dolabratus), stærri en hin fágæta tjarnaklukka (Agabus uliginosus); tiltölulega lítið kúpt, alsvört, hálfmött til nokkuð gljáandi, með afturfætur skapaða til sunds. Syndir með snöggum, rykkjóttum sundtökum. Oft má sjá brunnklukku koma að vatnsyfirborði, stinga afturendanum upp í gegnum vatnsflötinn til að draga súrefnisrík loftið inn undir skjaldvængina og svamla að því loknu aftur niður undir botn. Komi að henni styggð þar sem hún syndir stingur hún sér í felur í botnleðjunni. Lirfan, sem kallast vatnsköttur, er löng og grönn, mjókkar aftur í tvö halaskott og hefur öfluga bitkjálka.

Brunnklukka (Agabus bipustulatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Brunnklukka (Agabus bipustulatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Gísli Már Gíslason 1977. Íslenskar vatnabjöllur. Náttúrufræðingurinn 47: 154–159.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Nilsson, A.N. & M. Holmen 1995. The aquatic Adephaga (Voleoptera) of Fennoscandia and Denmark. II. Dytiscidae. Fauna Entomologica Scandinavica. Vol.32. E.J. Brill, Leiden, New York, Köln. 192 bls.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |