Tortubjallnaætt (Nitidulidae)

Almennt

Fræðiheitið er dregið af ættkvíslinni Nitidula sem er kvenkynsmynd af latneska orðinu nitidulus og merkir lítill, fíngerður, reyndar mjög lítill því nitidulus er minnkunarútgáfa af nitidus sem merkir lítill. Tegundir ættarinnar eru upp til hópa smávaxnar (2-6 mm).

Bjöllurnar eru flestar sem egglaga samanreknir stubbar, hafa skjaldvængi sem ná ekki yfirleitt ekki að hylja afturbolinn að öllu leyti. Þrír endaliðir annars grannra fálmara  mynda kúlulaga kylfu. Litir flestra tegunda eru  lítt eftirtektarverðir, sumar hafa þó rauðleita eða gula bletti eða belti. Flestar lifa á rotnandi plöntum eða ofþroskuðum ávöxtum og safa sem lekur úr plöntum. Sumar eru skaðvaldar, til dæmis í ræktun jarðarberja og ýmissa ávaxta. Þær leggjast þó fyrst og fremst á ávexti sem farnir eru að skemmast vegna ofþroska frekar en heilbrigða. Þekktar eru tegundir sem spilla þurrkuðum ávöxtum.

Ættkvíslin Glischrochilus hýsir stærstu tegundirnar þó smávaxnar séu flestar. Þær eru einnig nokkuð sér á báti í formi, ekki eins kubbslegar og flestar, hafa rauðgula bletti á skjaldvængjum og er skelin gljáandi. Flestrar tegundanna tilheyra undirættkvíslinni Librodor og lifa þær á blæðandi safa úr trjáberki. Þær sækja einnig í edik, ávaxtasafa, bjór, vín og almennt í gerjandi efni. Þær ganga gjarnan undir heitunum piknikbjöllur eða bjórbjöllur og geta orðið til leiðinda við borðhald úti undir opnum himni. Tegundir af undirættkvíslinni Glischrochilus eru hins vegar rándýr sem lifa á lirfum skordýra undir trjáberki. Ættkvíslin er þekkt fyrir að bera sveppasjúkdóma á milli plantna.

Alls eru þekktar um 4.500 tegundir tortubjallna í heiminum. Í Evrópu eru skráðar 238 tegundir í 42 ættkvíslum. Hérlendis höfðu til skamms tíma fundist tvær innfluttar tegundir af ættkvíslinni Carpophilus en sú þriðja skaut nýlega upp kolli væntanlega sem nýr landnemi.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |