Nárakkaætt (Silphidae)

Almennt

Finna má tvær ólíkar skýringar á fræðiheitinu. Til er gríska orðið silphē sem þýðir kakkalakki. Samlíking við kakkalakka er skiljanleg því sitthvað í útliti og háttum þessara bjallna getur valdið slíkum hugrenningum. Hins vegar er orðið sylph sem merkir hvers konar dauðlegan anda án sálar. Gæti þar verið tilvísun í lífshætti. Undirættir eru tvær, Silphinae og Nicrophorinae.

Bjöllurnar lifa á rotnandi leifum og ránum ekki síst í dýrahræjum, rotnandi sveppum og skít. Nokkur munur er á lífsháttum undirættanna. Nicrophorinae tegundir sækja í lítil hræ strax og þau falla til. Bjöllurnar grafa hratt undan þeim svo þau sökkva í jörðina með bjöllunum sem forða þeim þannig undan öðrum hræætum. Þær hafa lítinn áhuga á hræjum sem eru undirlögð af lirfum tvívængja. Eggjum er verpt í hræið og ala foreldrarnir önn fyrir lirfum sínum með því að æla upp í þær. Oft vinna pör saman að því grafa hræ og verja þau. Ef aðkomupar nær að verpa í hræ áður en það er hrakið á flótta þá er eggjum þeirra eytt. Stundum vinna kvendýr saman og annast afkvæmin í sameiningu. Silphinae tegundir leita í stærri hræ og þjónusta ekki lirfur sínar. Þær kjósa hræ sem farin eru að maðka, lirfur þeirra nærast á rofnandi hræjunum en bjöllurnar éta frekar flugulirfurnar í hræjunum.

Bjöllurnar eru oftast náttförular. Þær komast langt á skömmum tíma á hlaupum. Sumar eru vængjaðar og fleygar og eru fljótar að nálgast hræ þegar þefurinn berst þeim. Þó eru ekki allar vængjaðar tegundir fleygar. Þær fleygu sækja í hræ spendýra en ófleygar lifa frekar á smádýrum. Ófleygar framleiða fleiri egg fleygar til að mæta minna framboði af fæðu.

Nárakkar eru breytilegir að stærð (7-45 mm). Margar tegundir af Silphinae eru breiðar og flatvaxnar bæði yfir hálsskjöld og skjaldvængi, sem ýmist eru frekar sléttir eða með grófum gárum. Tegundir af Nicrophorinae eru oftast grennri, kúptar og kröftuglegar, vel til þess gerðar að grafa hræ í jörðu. Skjaldvængir eru stuttir, þverstýfðir og ná ekki að hylja afturbolinn allan. Algengt er að bjöllurnar séu einlitar svartar, stundum með rauðgulan hálsskjöld, stundum allar rauðgular með svarta flekki. Sumar eru svartar með skærlit rauðgul belti yfir skjaldvængi. Á ellefu liða fálmurum mynda þrír síðustu liðirnir kylfu, stundum hnúðmyndaða, sem er rík af skynjurum til að þefa uppi hræ.

Þroskaferill frá eggi til fullþroska bjallna tekur frá einum til tveggja mánaða. Ýtarlegar rannsóknir hafa farið fram á þroskastigunum því nárakkar koma stundum við sögu í réttarkrufningum. Þeir sækja strax í mannslík á víðavangi og verpa í þau. Þroskastig lirfa gerir kleift að álykta um dánarstundir. Lirfurnar ganga í gegnum þrjú þroskastig. Á síðasta stigi yfirgefa þær hræin til að púpa sig í jörðu. Þroskaferill tegunda af Nicrophorinae tekur skemmri tíma.

Fjölbreytileikinn er mestur í tempruðu loftslagi, mun færi í hitabeltislöndum þar sem samkeppni við annars konar skordýr sem lifa á hræjum, eins og maura og tvívængjur, er talin halda aftur af þeim. Alls eru þekktar 183 tegundir í heiminum. Í Evrópu finnast 43 tegundir. Í undirætt Nicrophorinae er aðeins ein  ættkvísl, Nicrophorus, með 13 tegundum,  Silphinae hefur 9 ættkvíslir og 30 tegundir. Ein þeirra tegunda er nýlegur landnemi hér á landi.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |