Picture: Erling Ólafsson
Möndlutanni. 3 mm. ©EÓ
Útbreiðsla
Um heim allan og berst vítt og breitt með kornflutningum.
Ísland: Staðfestir fundarstaðir eru á höfuðborgarsvæðinu; Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður. Hefur einnig fundist í Keflavík, við Hrauneyjafoss, á Blönduósi, í Eyjafirði og á Egilsstöðum. Möndlutanni finnst án efa í híbýlum víðar um land.
Lífshættir
Möndlutanni lifir alfarið innanhúss þar sem hann finnst á fullorðinsstigi allt árið um kring. Varðandi lífshætti skal vísað til umfjöllunar um korntanna (O. surinamensis). Möndlutanni þrífst þó betur við heldur hærri og jafnari hita en ættinginn náni. Nokkur munur er einnig á áherslum í fæðuvali. Möndlutanni kýs olíuríkari kornvöru, eins og hnetur og möndlur, einnig þurrkaða ávexti.
Almennt
Það var vel liðið á 20. öldina þegar uppgötvaðist að tannabjöllur í híbýlum okkar tilheyrðu tveim tegundum en ekki einni. Við endurgreiningar kom í ljós að elsta varðveitta eintak möndlutanna í safni Náttúrufræðistofnunar var frá Reykjavík 1947 en elsti korntanninn var litlu eldri eða frá 1941. Það er því nokkuð ljóst að báðar tegundirnar hafa þrifist hér samtímis alla þeirra tíð.
Möndlutanni er nánast eins og korntanni, staflaga, frambolur með þrem upphleyptum kjölum og sagtennta jaðra, gárur og punktaraðir liggja aftur eftir skjaldvængjum. Möndlutanni þekkist frá korntanna á því að bilið frá auga að afturjaðri höfuðs er helmingi mjórra en á möndlutanna.
Möndlutanni (Oryzaephilus mercator) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Heimildir
Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.
Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.
Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.
Wikipedia. Oryzaephilus mercator. http://en.wikipedia.org/wiki/Oryzaephilus_mercator [skoðað 19.1.2011]
Höfundur
Erling Ólafsson 20. janúar 2011, 22. nóvember 2013, 5. júlí 2018
Was the content helpful
Back to top