Korntanni (Oryzaephilus surinamensis)

Korntanni - Oryzaephilus surinamensis
Picture: Erling Ólafsson
Korntanni. 3 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Um heim allan og berst vítt og breitt með kornflutningum.

Ísland: Staðfestir fundarstaðir á höfuðborgarsvæðinu, frá Hafnarfirði til Kjalarness. Korntanni finnst án efa í híbýlum víðar um land.

Lífshættir

Korntanni lifir alfarið innanhúss þar sem hann finnst á fullorðinsstigi allt árið um kring. Hann nærist á kornvöru af öllu tagi, bæði grófum kornum og mjöli, hnetum, grjónum, brauði og þurrkuðum ávöxtum. Bjöllurnar eru kvikar og síleitandi að fæðu sem hentar. Opnar eða óþéttar pakkningar eru því fljótar að sýkjast þar sem korntanni er til staðar. Litlar lirfur ná að smeygja sér inn um minnstu glufur í pakkningum. Bjöllurnar eru langlífar og geta orðið allt að þriggja ára gamlar. Á lífsleiðinni ná þær að verpa allt að 400 eggjum, 6–10 á dag. Korntanni er hitakræfur og vegnar honum best við um 32°C en við þau skilyrði tekur lífsferillinn frá eggi til fullorðinsstigs aðeins um 25 daga, en allt að 80 daga við lægri hita. Undir 18°C nær tegundin ekki að þroskast og fjölga sér. Tegundin lifir þó ágætlega af í köldum geymslum þar sem hún getur beðið hagstæðari skilyrða.

Almennt

Korntanni er önnur tveggja tegunda tannabjallna á heimilum hér á landi. Tannabjöllur hafa fundist hér allt aftur til fyrri hluta síðustu aldar og var þá gert ráð fyrir að aðeins væri um eina tegund að ræða. Síðar kom í ljós að tegundirnar voru tvær, nauðalíkar. Í kjölfarið voru eintök í safni Náttúrufræðistofnunar endurskoðuð og kom þá í ljós að möndlutanni (O. mercator). var bæði algengari og útbreiddari en korntanni.

Tannabjöllurnar tvær eru auðþekktar frá öðrum híbýlabjöllum. Hálsskjöldurinn á þessum litlu, gulbrúnu, rauðbrúnu til dökkbrúnu, staflaga bjöllum er einstakur, með þrem upphleyptum kjölum og sagtennta jaðra. Af tönnunum draga bjöllurnar heitið. Aftur eftir skjaldvængjum liggja rifflur og punktaraðir. Á korntanna er bilið frá auga að afturjaðri höfuðs mun breiðara en á möndlutanna. Til að átta sig á þessu mun er gagnlegt að hafa samanburðinn fyrir augum.

Korntanni (Oryzaephilus surinamensis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Korntanni (Oryzaephilus surinamensis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Wikipedia. Oryzaephilus surinamensis. http://en.wikipedia.org/wiki/Oryzaephilus_surinamensis [skoðað 19.1.2011]

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |