Mjölbjölluætt (Tenebrionidae)

Almennt

Tegundarík ætt með alheimsútbreiðslu og um 20.000 tegundum þekktum. Tenebrio merkir þann sem forðast ljósið, þann sem er á ferli í myrkrinu. Þetta á einmitt við um flestar tegundanna.

Stærðarbreytileiki er mikill. Að gerð og sköpulagi eru tegundir ættarinnar einnig afar breytilegar og er ekki auðvelt að benda á augljós ættarsérkenni. Til að átta sig á ætterninu þarf að horfa eftir ýmsum  smáatriðum og púsla þeim saman. Umgjörð augnanna kemur oft upp um ætternið. Þau eru gjarnan formuð eftir sérkennilegri lögun höfuðsins, ekki hringlaga heldur löguð á ýmsa máta. Aftur frá fálmurum liggur oft hryggur inn í augun þannig að þau eru að hluta til ofan á höfðinu, sveigja fram hjá hryggnum niður á neðra borð höfuðsins, stundum eins og jarðhneta í laginu, stundum striklaga niður hliðar höfuðsins, stundum staðsett niðri í gróp ofan við hrygginn með framlengingu aftur og niður fyrir hann. Fálmarar eru einfaldir 11-liða, stundum með nokkurri kólfmyndun á endanum, fyrsta kviðplata á afturbol er heil, stofnliðir afturfóta ekki felldir inn í hana. Fleira mætti til taka.

Tegundir ættarinnar finnast hvarvetna, í myrkum frumskógum, sólríkum heitum eyðimörkum. Margar eru skaðvaldar í mjölvörum og fylgja manninum hvert sem hann fer. Aðlögunareinkenni eru því fjölbreytt. Flest er undir þegar fæðan er annars vegar. Bjöllurnar, bæði fullorðnar og lirfur, nærast fyrst og fremst á fæðu úr plönturíkinu, ekki síst rotnandi plöntuleifum, einnig lifandi plöntum og fræjum, dauðum skordýrum og flestu tilfallandi. Efnaskiptin eru hæg og verða margar langlífar. Margar hafa mjög virkar efnavarnir.

Á Íslandi hafa fundist níu tegundir mjölbjölluættar. Þar af teljast fjórar landlægar í húsum. Ein hefur verið flutt inn og ræktuð sem fóður fyrir gæludýr, aðrar eru innfluttir slæðingar.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |