Kakkalakkar (Dictyoptera)

Almennt

Kakkalakkar (Blattodea), bænabeiður (Mantodea) og termítar (Isoptera) voru til skamms tíma sjálfstæðir ættbálkar, en sameindalíffræðin hefur sýnt fram á það náinn skyldleika að þessir tegundahópar skuli vera saman í ættbálkinum Dictyoptera, þó útlitið bendi ekki beinlínis til þess. Íslenskt samheiti vantar enn á ættbálkinn. Hér er aðeins fjallað um kakkalakka þar sem hina dýrahópana er ekki að finna á Íslandi.

Kakkalakkar eru frekar stórir og jafnvel mjög stórir og forneskjulegir. Bolurinn er flatvaxinn og sporöskjulaga ofan frá séð. Hálsskjöldur stór og tiltölulega flatur, hylur fremsta lið frambols alveg að ofan og nær aftur yfir vængrætur.  Leðurkenndir framvængir hylja afturbol og ná stundum aftur fyrir hann, stundum mun styttri. Himnukenndir afturvængir samanbrotnir undir framvængjum. Sumar tegundir hafa tapað afturvængjunum og enn aðrar eru vænglausar með öllu. Þá sést þrískipting frambols mjög. Haus tiltölulega lítill, kýttur inn undir hálsskjöldinn, með mjög langa og granna fálmara. Fætur eru fremur langir með mörgum göddum. Tvö stutt, lensulaga, liðskipt skott. Kvendýr verpa eggjum í egghulstrum sem ungviðið klekst síðan úr, nokkur fjöldi úr hverju hulstri. Kakkalakkar eru ýmist plöntuætur eða alætur. Þrjátíu tegundir eru þekktar úr húsakynnum og eru sumar þar til óþurfta. Í heiminum eru um 4.600 tegundir kakkalakka þekktar. Í Evrópu eru 4 ættir, 3 ættir hafa fundist á Íslandi, 2 tegundir eru taldar landlægar, 8 nafngreindar tegundir hafa borist til landsins með varningi.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |