(Chironomus spp.)

Distribution

Tegundir af ættkvíslinni Chironomus finnast í öllum heimsálfum nema Eyjaálfu.

Ísland: Tegundir toppmýs finnast um land allt, jafnt á láglendi sem hálendi.

Life styles

Toppmýstegundir hafa lífsferla bæði í lygnu og hægt rennandi vatni. Lirfurnar eru í spunatúpum í eða ofan á botnleðjunni og lifa á grotinu með því að éta það í sig beint eða sigta það úr vatninu sem um þær leika. Lirfurnar innihalda blóðrauða (hemóglóbín) sem gerir þeim kleift að taka upp súrefni úr vatninu, jafnvel úr súrefnisrýru vatni. Lirfurnar einkennast því af blóðrauðum lit. Með bylgjuhreyfingu bolsins geta þær aukið vatnsflæðið um hann til að auka aðkomu súrefnis. Þroskaferill tekur eitt til tvö ár. Klaktími kann að vera nokkuð breytilegur eftir tegundum en þegar klak á sér stað getur fjöldi flugna orðið gífurlegur og dansandi karlflugur myndað svarta, þétta stróka líkasta hvirfilvindum. Þar dansar hver sem best hann getur í von um að falla kvenflugu í geð. Slíkt fyrirbæri er annálað við Mývatn.

In General

Ein íslensk tegund, Chironomus islandicus (Kieffer, 1913), hefur verið mikið rannsökuð í tengslum við lífríkisrannsóknir í Mývatni, en hún myndar myrka stróka í maí til júní, gjarnan yfir hólum og hraundröngum. Er það tilkomumikil sjón. Einnig hefur tegundin verið viðfangsefni í litningarannsóknum. Hún hefur enn sem komið er ekki fundist annars staðar en á Íslandi. Þetta stórvaxna toppmý er afar mikilvægt í fæðukeðju Mývatns og miklar stofnsveiflur milli ára hafa afdrifarík áhrif á aðra dýrastofna, svo sem andfugla og fiska.

Einnig má geta um toppmý af ógreindri tegund sem gjarnan vekur athygli í miðborg Reykjavíkur. Sú mývetnska er alsvört á lit en sú reykvíska fölgræn. Stundum má sjá umtalsverðan fjölda síðsumars sitjandi á húsveggjum á allstóru svæði upp frá Reykjavíkurtjörn en þangað eiga þær uppruna að rekja. Það er því ljóst að sú tegund hefur umtalsvert þol gagnvart mengun og súrefnisþurrð. Reyndar er það svo að sumar tegundir toppmýs eru góðir vísar á vatnsgæði.

Toppmý er dæmigert rykmý að sköpulagi og sker sig einna helst frá öðrum tegundum vegna stærðar. Eins og aðrar tegundir hafa karlflugur mjög áberandi fjaðraða fálmara sem gjarnan er líkt við jólatré. Fálmarar kvenflugna eru ekki fjaðraðir.

Distribution map

Images

References

Gardarsson, A., J.S. Ólafsson, Th. Hrafnsdóttir, G.M. Gíslason & Á. Einarsson 1995. Monitoring of chironomid numbers at Myvatn, Iceland: the first sixteen years. Í: Cranston, P. (ritstj.): Chironomids: From genes to ecosystems. CSIRO, Melbourne, bls. 141-154.

Hrafnsdottir, Thora 2005. Diptera 2 (Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48b. Steenstrupia, Zoological Museum, Kaupmannahöfn. 169 bls.

Lindegaard, C. 1979. The invertebrate fauna of Lake Mývatn, Iceland. Oikos 32: 151-161.

Lindagaard, C. & P.M. Jónasson 1979. Abundance, population dynamics and production of zoobenthos in Lake Mývatn, Iceland. Oikos 32:202-227.

Pedersen, B.V. 1978.Studies on the taxonomy of Chironomus islandicus (Kieffer, 1913) (Diptera: Chironomidae). Ent. Scand. 9: 309-311.

Wikipedia. Chironomus. http://en.wikipedia.org/wiki/Chironomus [skoðað 20.9.2012]

Author

Erling Ólafsson 20. september 2012.

Biota

Tegund (Species)
(Chironomus spp.)