Þangfluga (Coelopa frigida)

Þangfluga – Coelopa frigida
Picture: Erling Ólafsson
Þangfluga (Coelopa frigida). 7 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel. Atlantshafsstrendur Evrópu allt norður til Svalbarða.

Ísland: Strendur umhverfis land allt nema sandstrendur á sunnan- og suðaustanverðu landinu.

Lífshættir

Þangflugan finnst á sjávarströndum þar sem þang og þari rekur upp og safnast í hrannir. Lirfurnar lifa á gerlagróðri sem þekur rotnandi þangið. Þær þroskast allt árið um kring í mestu hrönnunum sem gerlagróðurinn hitar upp innan frá og ná ekki að frjósa á veturna nema á yfirborðinu. Fjöldi flugna getur orðið gríðarlegur við þessar aðstæður. Flugurnar eru á ferli allt árið um kring vegna hitans í hrönnunum og blossa oft upp þegar hlánar. Þær safnast þá gjarnan að húsveggjum í næsta nágrenni við ströndina einkum þar sem sólargeislar ylja. Umtalsverður sóðaskapur getur orðið af flugunum þegar þær safnast fyrir innanhúss en skaðsemin er engin. Margar kynslóðir þroskast á ári því þroskatíminn er ekki nema tæpar tvær vikur við góð skilyrði.

Almennt

Fáar tvívængjur koma fyrir í eins miklum fjölda hér á landi og þangflugan í kjörlendi sínu. Þó viðkoman eigi sér einungis stað á sjávarströndum er ekki óalgengt að rekast á þangflugur inn til landsins en þær berast léttilega langar leiðir með vindum. Þangflugur hafa til dæmis fundist í Esjufjöllum í Vatnajökli og í Hvannalindum norðan Vatnajökuls. Við rannsóknir í Hvannalindum árið 1932 sást þar fjöldi þangflugna. Tegundin fannst þar einnig við rannsóknir árið 1980. Á ströndum landsins eru þangflugur mikilvæg fæða smáfugla ekki síst á fartímum, einnig fyrir vaðfugla eins og sendlinga og tildrur allt árið um kring.

Þangfluga (4-8 mm) er afar breytileg að stærð. Hjá fáum tegundum má greina jafnmikinn stærðarbreytileika. Bolurinn er grásvartur til svartur, fætur gulbrúnir. Flugurnar eru flatvaxnar, frambolur nær sléttur að ofan og afturbolur samanpressaður. Á hliðum frambols og afturbols eru sterkir burstar en ekki eftir bakinu sjálfu, en á baki frambols eru þéttsetnir smáburstar. Fætur eru alsettir sterkum burstum.

Þangfluga – Coelopa frigida
Þangfluga (Coelopa frigida) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Anderson, F.W. & P. Falk 1935. Observations on th ecology of the central desert of Iceland. Jourlan of Ecology 23: 406–421.

Erling Ólafsson 1988. Könnun á smádýrum í Hvannalindum, Fagradal og Grágæsadal. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 5. 86 bls.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |