Húsfluga (Musca domestica)

Distribution

Um heim allan.

Ísland: Um land allt.

Life styles

Kvenflugur makast einu sinni og geyma í sér sáðfrumur. Þær verpa um 100 eggjum í klösum í allskyns rotnandi lífrænan úrgang, skít, hræ og sorp. Geta framleitt allt að 500 egg á æviskeiðinu. Eggin klekjast samdægurs og hvítar fótalausar iðandi lirfur taka hraustlega til matar síns. Þær þroskast á tveim vikum eða lengri tíma eftir aðstæðum. Púpan er sívöl rauðbrún um 8 mm löng. Flugurnar geta lifað í allt að mánuð og eru á ferli allt sumarið frá vori og fram eftir hausti. Þær geta lagst í vetrardvalann fullorðnar og kviknað til lífs innanhúss hvenær sem er ársins.

Flugurnar eru síleitandi og sækja markvist í allskyns lífrænan vökva, einnig í næringu á föstu formi og leysa upp með meltingarsafa sem þær spýta út um langan sograna. Flest matvæli okkar manna duga flugunum einnig. Uppeldisstöðvar eru einna helst í gripahúsum, skíthaugum og loðdýrabúum.

In General

Húsflugan er algeng um land allt, en vegna nálægðar við hentugar uppeldisstöðvar öllu algengari til sveita en í þéttbýli. Ólíklegt er að hún lifi á miðhálendinu en þangað berst hún auðveldlega á sumrin undan vindum. Á sveitabýlum getur fjöldi flugna orðið slíkur að til vandræða verður. Flugurnar safnast oft í miklum fjölda í híbýlum þar sem gripahús standa í nágrenninu. Þær renna inn um opna glugga og dyragættir, láta ekki vísa sér á dyr og gerast ágengar við fólk og matardiska. Ólíkt öðrum flugum sem koma inn í hús forðast þær gluggana.

Húsfluga (7 mm) er meðalstór fluga, grá, grásvört til svört á lit, með fjórar dökkar langrákir á frambol. Augun eru stór, egglaga, lítið aðskilin ofan á höfði á karlflugum en vítt aðskilin á kvenflugum, vangar framan við augu ljósleitir. Annars þekkist hún auðveldlega á hátterni sínu innanhúss og fádæma snerpu. Á hlaupum er húsfluga kvik, vængirnir beinast út á við og gefa flugunni þríhyrnulaga heildarform. Hún kemur sér léttilega undan höggum.

Stundum er því haldið fram að húsflugan sé eitt skæðasta dýr jarðar. Það má til sanns vegar færa í heitari löndum. Húsflugur bera í mat manna fjölda sýkla sem geta valdið alvarlegum sjúkdómum og er tegundin því mikil ógn við heilbrigði þjóða einkum í þróunarlöndum. Um 100 gerðir sýkla hafa verið tengdir húsflugunni. Sumir stofnar hennar hafa þróað með sér ónæmi fyrir skordýraeitri sem gerir baráttuna gegn þessum alvarlega sýklabera torsótta.

Distribution map

References

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Hurlstone Hardy, G. 2015. The Book of the Fly: A Nature Study of the House-Fly and Its Kin, the Fly Plague and a Cure. Forgotten Books, London.

Author

Erling Ólafsson 29. maí 2017.

Biota

Tegund (Species)
Húsfluga (Musca domestica)