Forarsveifa (Sericomyia lappona)

Forarsveifa - Sericomyia lappona
Picture: Erling Ólafsson
Forarsveifa. 14 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa frá nyrstu héruðum suður til Pyreneafjalla og Alpafjalla en finnst ekki í Miðjarðarhafslöndum; austur eftir Asíu til Kyrrahafs, NA-Kína og Kúrileyja.

Ísland: Láglendi um land allt en fundarstaðir þó frekar strjálir, á miðhálendinu fundin í Grágæsadal á Brúaröræfum.

Lífshættir

Kjörlendi forarsveifu er votlendi af ýmsu tagi, einkum þar sem uppi stendur kyrrt, grunnt og næringarríkt vatn með rotnandi plöntuleifum og groti. Í gömlum skurðum sem eru að gróa upp, t.d. með hófsóleyjum (Caltha palustris), klófífu (Eriophorum angustifolium) og fergin (Equisetum fluviatile), má ganga að forarsveifu vísri. Lirfurnar alast upp í grotinu á botninum. Þær hafa langt loftrör á afturenda sem þær geta teygt upp fyrir vatnsyfirborð til að sækja loft. Forarsveifur hafa fundist frá lokum maí og til miðbiks ágúst. Þær sækja í blóm af ýmsu tagi.

Almennt

Forarsveifa er frekar fáséð utan hentugasta kjörlendis og lætur lítið fyrir sér fara nema á sólríkum góðviðrisdögum. Hún er ein stærsta sveifflugan hér á landi og auðþekkt. Hún er dökk á lit með afar áberandi þrjú skýrt teiknuð mjó gul belti yfir breiðan egglaga afturbolinn, sem eru slitin í miðjunni. Á vænghimnunni eru gráleitir skuggar.

Forarsveifa (Sericomyia lappona) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Forarsveifa (Sericomyia lappona) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bartsch, H., E. Binkiewicz, A. Klintbjer, A. Rådén & E. Nasibov. 2009. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Tvåvingar: Blomflugor: Eristalinae & Microdontinae, Diptera: Syrphidae: Eristalinae & Microdontinae. ArtDatabanken, SLU, Uppsala.

Erling Ólafsson 1988. Könnun á smádýrum í Hvannalindum, Fagradal og Grágæsadal. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 5. 86 bls.

Jensen, J.-K. 2008. Navna og skrásetingarlisti til blómflugurnar Syrphidae í Føroyum. Jens-Kjeld Jensen, sérprent 2008. 3 bls.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |