Humlusveifa (Eristalis intricaria)

Distribution

Gjörvöll Evrópa, frá Skandinavíu suður til Miðjarðarhafs, austur um Rússland og Síberíu til Kyrrahafs; Færeyjar.

Ísland: Láglendi umhverfis land allt.

Life styles

Finnst við fjölbreyttar gróðurríkar og skjólgóðar aðstæður, í kjarr- og skóglendi, svo og í húsagörðum, stundum fjarri uppeldisstöðvum en þær eru í lífríkum tjörnum, skurðum og pollum, garðtjörnum með rotnandi laufblöðum o.s.frv. Lirfurnar nærast á rotnandi plöntuleifunum í vatninu. Humlusveifur sjást frá vori til hausts, byrjun maí og fram eftir september, en mest er um þær yfir sumarmánuðina enda sólkærar.

In General

Humlusveifa, einnig kölluð loðsveifa, hefur sennilega numið hér land eftir miðja 20. öld. Hún fannst fyrst í Skagafirði 1971 og víðar á landinu fljótlega eftir það. Á góðviðrisdögum gerir hún sig heimakomna í görðum höfuðborgarbúa og víðar og vekur stundum ugg. Hún er stór og loðin og minnir fljótt á litið verulega á humlur (Bombus). Karlflugur leggja undir sig svæði í görðunum og verja þau fyrir kynbræðrum sínum. Þeir standa á vaktinni kyrrir í loftinu og skjótast snögglega burt ef styggð kemur að þeim og birtast á nýjum stað kyrrstæðir í loftinu. Þetta þykir ýmsum fáfróðum ógnandi atferli og stendur stuggur af. Kvenflugur laðast að sveimandi körlunum og sveima á sama hátt kyrrar á meðan hugir parsins eru metnir. Humlusveifa á ekkert skylt við humlur eða aðrar gaddvespur og er meinlaus með öllu. Kvenflugur hafa rauðleitan frambol og hvíthærðan afturenda líkt og rauðhumlur (Bombus hypnorum). Á karlflugum eru ekki svo greinileg litaskil á afturbolnum.

Distribution map

Images

References

Jensen, J.-K. 2008. Navna og skrásetingarlisti til blómflugurnar Syrphidae í Føroyum. Jens-Kjeld Jensen, sérprent 2008. 3 bls.

Peck, L.V. 1988. Family Syrphidae. Bls. 11–230 í Á. Soós (ritstj.), Catalogue of Palaearctic Diptera 8. Syrphidae – Conopidae. Eslevier, Amsterdam. 363 bls.

Author

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 18. ágúst 2010

Biota

Tegund (Species)
Humlusveifa (Eristalis intricaria)