Snjáldursveifa (Platycheirus manicatus)

Snjáldursveifa - Platycheirus manicatus
Picture: Erling Ólafsson
Snjáldursveifa, kvenfluga. 9 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel, frá N-Skandinavíu suður til N-Afríku, austur eftir Asíu, um Tyrkland austur til Mongólíu og NA-Síberíu, Færeyjar, Grænland og Alaska.

Ísland: Sunnanvert landið frá Reykjanesvita og Borgarnesi austur í Öræfi, einnig á miðhálendinu sunnanverðu, þ.e. í Þóristungum og Veiðivötnum.

Lífshættir

Snjáldursveifa finnst í margskonar gróðurlendum, gras-, blóm- og kjarrlendi, gjarnan í reski í byggð, í strandgróðri, fjörukálsbreiðum (Cakile maritima) á sandströndum og ekki síður melgresi (Leymus arenarius), einnig í raklendi. Hún er mikið á ferðinni á sólríkum sumardögum og heimsækir allskonar blóm í leit að orku. Flugtími nær frá byrjun júní fram í miðjan september með hámarki á miðju sumri. Lirfurnar éta blaðlýs.

Almennt

Snjáldursveifa fannst fyrst hér á landi seint á sjöunda áratug síðustu aldar þegar fram fór könnun á baklandi Surtseyjar við suðurströnd landsins. Um svipað leyti tók hún að finnast á suðvestanverðu landinu og sú fyrsta í Surtsey sjálfri árið 1972 sem sýnir dreifingarmátt tegundarinnar. Hún er nú landlæg í eynni. Ekki er ólíklegt að snjáldursveifa hafi numið hér land um miðja síðustu öld og sennilega borist hingað með vindum, en sveifflugur berast sumar hverjar langar vegalengdir með vindum yfir opið haf. Án efa mun tegundin dreifast um norðanvert landið á komandi árum.

Snjáldursveifa er ein fárra sveifflugna sem er auðþekkt og verður vart ruglað saman við skyldar tegundir. Tegundir af ættkvíslinni Platycheirus eru þó flestar hverjar áþekkar og eru kvenflugur einstaklega torgreindar. Karldýr ættkvíslarinnar hafa útflatta fótliði eitt og tvö á fremsta fótapari og er lögun liðanna oftast einkennandi fyrir hverja og eina tegund. Snjáldursveifa er tiltölulega ljós og mött, grábrún- eða grágrænpúðruð og gulhærð, með áberandi gula flekki á afturbol. Munnkanturinn er þó það einkenni sem er afgerandi en hann er teygður fram í stút eða snjáldur sem á ekki sína líka hjá ættingjunum. Svo háttar til á báðum kynjum.

Snjáldursveifa (Platycheirus manicatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Snjáldursveifa (Platycheirus manicatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bartsch, H., E. Binkiewicz, A. Rådén & E. Nasibov 2009. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Tvåvingar: Blomflugor: Syrphinae. Diptera: Syrphidae: Syrphinae. ArtDatabanken, SLU, Uppsalir.

Erling Ólafsson & María. Ingimarsdóttir 2009. The land-invertebrate fauna on Surtsey during 2002–2006. Surtsey Research 12: 113–128.

Lindroth, C.H., H. Andersson, Högni Böðvarsson & Sigurður H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The Development of a New Fauna, 1963–1970. Terrestrial Invertebrates. Ent. scand. Suppl. 5. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 280 bls.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |