Letursveifa (Sphaerophoria scripta)

Letursveifa - Sphaerophoria scripta
Picture: Erling Ólafsson
Letursveifa, kvenfluga. 8 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrvópa suður til N-Afríku og út á haf til Kararíeyja, Azoreyja og Madeira, austur um Asíu til Kyrrahafs, Kasmírs og Nepal, einnig Grænland.

Ísland: Láglendi um land allt og víða á miðhálendinu.

Lífshættir

Letursveifa finnst í margskonar ríkulegum gróðurlendum, eins og kjarrlendi með birki (Betula), víði (Salix) og blómplöntum, í blómlendi, reski og húsagörðum. Flugtíminn er frá byrjun júní og fram yfir miðjan ágúst með hámarki í seinni hluta júní og í júlí. Mest ber á flugunum á sólríkum góðviðrisdögum. Þær hafa þó frekar hægt um sig, fljúga lágt og létt og tylla sér gjarnan fljótt á næstu blóm sem á veginum verða. Þær heimsækja blóm af flestu tagi. Lirfurnar nærast á blaðlúsum.

Almennt

Þó letursveifa sé nokkuð algeng þá ber alla jafna ekki mikið á henni þar sem hún berst yfir á léttu flugi sínu. Það er helst að sjá hana þar sem hún hefur tyllt sér á blóm til að nærast. Þar getur hún setið tiltölulega róleg svo hægt er að virða hana fyrir sér.

Letursveifa er með minni sveifflugum hér á landi og töluvert frábrugðin öðrum tegundum að sköpulagi, ef undan er skilin önnur sárafágæt tegund af sömu ættkvísl, hnúðsveifa (S. fatarum). Letursveifa er fíngerð og léttbyggð. Á frambol eru áberandi gular hliðarrendur, ein hvoru megin, skuturinn einnig gulur og sker hann sig fá annars grænbrúnu baki frambolsins framan við hann. Afturbolur er langur og mjór, einkum á karlflugum, með gulum flekkjum sem mynda nánast belti yfir liðina nema helst á öftustu liðum. Á karlflugum nær afturbolur vel aftur fyrir enda á aðfelldum vængjum en að vængendum á kvenflugum. Kynfæri karslins mynda stóran hnúð aftan á neðanverðum enda afturbolsins. Letursveifa og hnúðsveifa verða ekki aðgreindar eftir þessari lýsingu.

Letursveifa (Sphaerophoria scripta) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Letursveifa (Sphaerophoria scripta) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bartsch, H., E. Binkiewicz, A. Rådén & E. Nasibov 2009. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Tvåvingar: Blomflugor: Syrphinae. Diptera: Syrphidae: Syrphinae. ArtDatabanken, SLU, Uppsalir.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |