Folafluga (Tipula paludosa)

Distribution

Evrópa frá norðri, austur til Rússlands, suður á Balkanskaga og þar yfir til N-Afríku. Innflutt til N-Ameríku, bæði Bandaríkjanna og Kanada.

Ísland: Suður- og Suðvesturland; Reykjavík, Hafnarfjörður, Kollafjörður, Ölfus, Fljótshlíð.

Life styles

Folafluga hefur fundist í gróðurstöðvum, gróðurríkum görðum og trjárækt. Lirfur eru í rökum jarðvegi og gróðursverði. Fæðuval þeirra er fjölbreytt; grös, skrautjurtir, grænmeti og rótarávextir, einnig græðlingar trjáa og runna. Fullorðnar flugur sjást síðsumars, frá lokum júlí og fram í byrjun september. Lirfur taka þá að vaxa, leggjast í vetrardvala, halda síðan vexti áfram að vetri liðnum og púpa sig þegar fullum vexti er náð á miðju sumri.

In General

Folafluga er nýlegur landnemi hér á landi. Hún varð fyrst staðfest í Hveragerði sumarið 2001 en heimafólk varð hennar vart nokkru fyrr. Folaflugu fjölgaði hratt við kjörin skilyrðin í Hveragerði, þar sem jörð er ylvolg og rök og gróskan annáluð utan sem innan gróðurstöðva. Hún tók fljótlega að sjást víðar í Ölfusi. Sumarið 2005 fannst hún einnig hjá Skógrækt ríkisins að Mógilsá í Kollafirði og svo í Húsahverfi í Reykjavík 2010. Ári síðar (2011) fannst tegundin svo við Laugardalinn og ennfremur í nágrenni Hamarskotslækjar í Hafnarfirði. Þar fannst hún fyrst um miðjan júlí og alloft í ágúst og fram í byrjun september. Þetta sama sumar hafði hún einnig náð austur í Fljótshlíð. Folafluga hefur því náð að festa sig tryggilega í sessi.

Það er ekki ástæða til að fagna þessum nýliða í smádýrafánunni, því ólíkt nánustu ættingjum er um skaðvald að ræða, sem getur látið að sér kveða þar sem margar lirfur alast upp. Það er þekkt vandamál erlendis, að lirfur nagi börk græðlinga í ræktunarreitum niðri við rót þannig að þeim blæðir út og þeir falla.

Folafluga er stærst hrossaflugna hér á landi og auðþekkt frá þeim hinum á stærðinni. Auk þess hefur hún fölleitan grágulan afturbol og einlita vængi. Karlflugur eru mun fótalengri en kvenflugurnar en á þeim síðarnefndu er afturbolur áberandi lengri.

Distribution map

Images

References

Distribution Maps of Plant Pests 1977. Tipula paludosa. http://www.cabi.org/dmpp/default.aspx?LoadModule=Review&ReviewID=12984&site=164&page=1155 [skoðað 7.8.2009].

Discover life 2007. Tipula paludosa. http://www.discoverlife.org/mp/20q?search=Tipula+paludosa [skoðað 7.8.2009].

Lísa Anne Libungan 2006. Vistfræði varmasmiðs (Carabus nemoralis) og folaflugu (Tipula paludosa). Lísa Anne Libungan, Gísli Már Gíslason & Tryggvi Þórðarson 2009. Folafluga – nýtt skordýr á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 77: 107–112.

Háskóli Íslands, Raunvísindadeild – Líffræðiskor. B.Sc. verkefni. 28 bls.

Blackshaw, R.P. & C. Coll. 1999. Economically important leatherjackets og grassland and cereals: biology, impact and control. Integrated Pest Management Reviews 4: 143–160.

Author

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 27. mars 2013.

Biota

Tegund (Species)
Folafluga (Tipula paludosa)