Kaplafluga (Prionocera turcica)

Kaplafluga - Prionocera turcica
Picture: Erling Ólafsson
Kaplafluga, kvendýr. 16 mm (bolurinn). ©EÓ

Útbreiðsla

M- og N-Evrópa til nyrstu hjara og austur um Síberíu, Austurlönd nær, N-Ameríka.

Ísland: Land allt, jafnt láglendi sem hálendi þar sem hún er þó stopul og sjaldgæf. Þó enn ófundin á Vestfjarðakjálka.

Lífshættir

Kaplafluga er votlendisfluga. Hún finnst helst í mýrum og flóum, í sefi við tjarnir, á dýjasvæðum og við heitar laugar. Uppgrónir skurðir eru mjög eftirsóttir. Flugurnar fljúga fyrri hluta sumars, frá maílokum til loka júlí, og verpa. Lirfurnar lifa á groti og plöntuleifum í gróðursverði votlendisins og ofan í vatni, stundum í heitum laugum. Þær vaxa upp síðsumars og og púpa sig þegar haustar. Flugur skríða síðan úr púpum næsta vor.

Almennt

Kaplafluga sker sig ekki svo mjög frá ættingjum sínum hrossafluguættar; stór og lappalöng eins og þær hinar. Hún blandar þó litlu geði við frænkur sínar þar sem hún kýs mun blautara umhverfi. Hún er óvíða meira áberandi en í fallega grónum skurðum og bleytuvilpum þegar hófsóleyjar skarta blómskrúði í júní. Kaplaflugur sitja þar gjarnan á blómunum og sitja einnig í hávöxnum sefgróðri.

Af tegundunum líkist kaplafluga einna helst folaflugu (Tipula paludosa) hvað lit varðar, nær einlit grágul, með einlita vængi, en er þó öllu smávaxnari. Þær tvær fljúga ekki á sama tíma og verður því varla ruglað saman. Öruggast er að greina kaplaflugu undir stækkun með því að skoða fálmarana sem eru alveg án hára, ólíkt Tipula tegundunum sem hafa hárakransa við liðamót.

Kaplafluga (Prionocera turcica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Kaplafluga (Prionocera turcica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Fauna Europaea. Prionocera turcica. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=146897 [skoðað 9.5.2012]

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |