Birkiþéla (Scolioneura betuleti)

Birkiþéla – Scolioneura betuleti
Picture: Erling Ólafsson
Birkiþéla (Scolioneura betuleti), kvendýr. 5 mm. ©EÓ
Birkiþéla – Scolioneura betuleti
Picture: Erling Ólafsson
Birkiþéla (Scolioneura betuleti), lirfa. 9 mm. ©EÓ
Birkiþéla – Scolioneura betuleti
Picture: Erling Ólafsson
Birkiþéla (Scolioneura betuleti), lirfa í laufblaði hengibjarkar. ©EÓ

Útbreiðsla

Norður- og Mið-Evrópa.

Ísland: Höfuðborgarsvæðið, Akureyri, Bláskógabyggð.

Lífshættir

Birkiþéla lifir á birki (Betula) og hefur hún fundist á nokkrum tegundum þess. Lirfurnar vaxa upp inni í laufblöðum sem vaxa fram síðsumars, hola þau innan svo aðeins þekjuvefir efra og neðra borði standa eftir sölnaðir. Hér hafa sést umtalsverð ummerki eftir lirfur um miðjan ágúst. Fullorðin dýr hafa fundist í fyrri hluta júlí á Akureyri og fyrri hluta ágúst í Hafnarfirði. Sennilega fer vetrardvali fram á púpustigi. Tegundin er nýtilkomin á Íslandi og er lífsferill hennar því enn lítt þekktur. Lirfur hafa fundist hér ilmbjörk (Betula pubescens) og hengibjörk (Betula pendula), enn sem komið er aðeins í görðum.

Almennt

Ekki er vitað hvenær og hvernig birkiþélan barst til landsins en ólíklegt er talið að langt sé um liðið. Gera má ráð fyrir að hún hafi borist með óvarlegum innflutningi trjáa. Þélan gæti hafa dulist hér í nokkurn tíma því ummerki hennar eru áþekk ummerkjum eftir lirfur fiðrildisins birkikembu (Heringocrania unimaculella) sem einnig er nýlegur landnemi og alkunn orðin vegna þess áberandi skaða sem hún veldur á birkilaufum fyrri hluta sumars. Birki hefur ávallt náð að endurnýja laufskrúð sitt þegar lirfur birkikembunnar hafa þroskast til fulls og horfið af vettvanginum. En mjög nýlega fór að bera á samskonar spjöllum á birkilaufum síðsumars og voru voru uppi grunsemdir um að birkikemban væri farin að skila tveim kynslóðum á sumri. Það var þó talið ólíklegt þar sem engar aðrar vísbendingar voru um slíkt, þ.e. fullþroska fiðrildi á kreiki.

Undir miðjan júlí 2017 varð vart við mikinn fjölda torkennilegra blaðvespna á birki á Akureyri og var eintökum safnað til rannsókna. Eitt eintak fannst svo í gamalli gróðrarstöð í Hafnarfirði í fyrrihluta ágúst. Um miðjan ágúst höfðu komið fram mikil ummerki á ilmbjörk og hengibjörk á Akureyri, einnig á ilmbjörk í gróðrarstöð á höfuðborgarsvæðinu og hengibjörk í vesturbæ Kópavogs. Skemmd birkilauf frá Kópavogi voru skoðuð 22. ágúst. Lirfur voru farnar úr flestum þeirra en í öðrum voru enn lirfur af mismunandi stærðum. Nokkrum dögum síðar voru skoðuð lauf hengibjarkar annars staðar í Kópavogi. Ummerkin voru þau sömu en lirfur farnar.

Birkiþéla (3-5 mm) er smávaxin blaðvespa og nauðalík ýmsum öðrum tegundum. Sérfræðikunnáttu þarf til að greina fullorðnu dýrin til tegundar. Þau eru gljáandi svört á lit nema fætur sem eru gulir að allmiklu leyti. Flókið vængæðakerfi kann að nýtast fróðum. Lirfur í laufblöðum birkis í ágúst eru besta vísbendingin um tegundina.

Birkiþéla – Scolioneura betuleti
Birkiþéla (Scolioneura betuleti) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Global Biodiversity Information Facility. Scolioneura betuleti. https://www.gbif.org/species/449076.

Plant Parasites of Europe, leafminers, galls and fungi. Scolioneura betuleti. http://bladmineerders.nl/parasites/animalia/arthropoda/insecta/hymenoptera/symphyta/tenthredinidae/scolioneura/scolioneura-betuleti.

The leaf and stem mines of British flies and other insects. Scolioneura betuleti. http://www.ukflymines.co.uk/Sawflies/Scolioneura_betuleti.php.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |