Trjágeitungur (Dolichovespula norwegica)

Trjágeitungur - Dolichovespula norwegica
Picture: Erling Ólafsson
Trjágeitungur. ©EÓ
Trjágeitungur - Dolichovespula norwegica
Picture: Erling Ólafsson
Trjágeitungur, þerna. ©EÓ
Trjágeitungur - Dolichovespula norwegica
Picture: Erling Ólafsson
Trjágeitungur, bú á kletti. ©EÓ
Trjágeitungur - Dolichovespula norwegica
Picture: Erling Ólafsson
Trjágeitungur, bú í tré. ©EÓ
Trjágeitungur - Dolichovespula norwegica
Picture: Erling Ólafsson
Trjágeitungur, drottning. 16 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðanverð Evrópa og Asía allt norður til 70°N, í Evrópu suður í miðbik Frakklands. Algengari norðan til í Bretlandi en sunnan til, Orkneyjar.

Ísland: Láglendi um land allt, fundinn á hálendinu norðan Vatnajökuls við Kárahnjúka og í Grágæsadal á Brúaröræfum, svo og í Arnarfelli hinu mikla.

Lífshættir

Trjágeitungur er samfélagsskordýr. Bú hans eru oftast berskjölduð, hangandi í trjám og runnum, undir þakskeggjum húsa, á húsveggjum, skjólveggjum og klettum, einnig í börðum og þúfnakollum úti í náttúrunni, þar sem oftast sést í þau. Drottningar vakna oftast af vetrardvala í seinnihluta maí, stundum fyrr ef vorar snemma, jafnvel um eða upp úr 10. maí. Eftir að hafa byggt upp þrek í nokkra daga eftir vetrarsvefninn hefst drottning handa við byggingu bús. Að u.þ.b. mánuði liðnum bætist henni liðsauki við búreksturinn er fyrstu dæturnar, þ.e. þernurnar, skríða úr púpum. Þernum fjölgar jafnt og þétt fram eftir sumri og búið stækkar með vaxandi hraða. Í júlí fara að sjást karldýr og nýjar drottningar og nær framleiðsla þeirra hámarki um miðjan ágúst. Á sama tíma fer þernum að fækka. Í byrjun september líður búið undir lok, síðustu þernur drepast, karlar makast við drottningarnar ungu og drepast að því loknu en dömurnar leggjast fyrir á hentugum stöðum til vetrarsvefns og bíða vors. Geitungarnir næra lirfur í búum á smádýrum sem þeir veiða en sækja einnig í blómasafa og hunangsdögg á laufblöðum (sætan skít blaðlúsa) til að næra sjálfa sig.

Almennt

Trjágeitungar fundust fyrst hérlendis sumarið 1982 í Skorradal á Vesturlandi og í Neskaupstað á Austurlandi. Því má gera ráð fyrir að þeir hafi verið mættir til leiks allnokkrum árum fyrr. Þeir dreifðust hratt um láglendið allt umhverfis landið, jafnt um byggð ból sem óbyggðir og allt upp í hálendisbrúnir. Þerna fannst við Kárahnjúka árið 2000 og gæti vel hafa komið úr búi þar og lítið bú fannst í Grágæsadal sunnarlega á Brúaröræfum í kringum 1995 en það náði ekki að þroskast. Trjágeitungur er harður af sér og á auðvelt uppdráttar hér á landi. Hann hefur smám saman aðlagast íslenskum aðstæðum og mætt styttra sumri en hann átti að venjast utan Íslands með því að stytta tímann sem þarf til að ljúka búskapnum. Á sama tíma hafa búin minnkað og geitungum í þeim fækkað. Í stærsta búi trjágeitunga sem rannsakað hefur verið hér á landi voru 879 geitungar.

Trjágeitungar eru árásargjarnir þegar þeir eru ónáðaðir við búin og geta þá stungið illa en eru annars yfirleitt til friðs. Þeir sækja sjaldan inn í hús. Trjágeitungar eru dekkri en aðrir geitungar og þekkjast m.a. á rauðleitum bletti framarlega á hliðum afturbols og gulum bletti á 1. lið fálmara.

Trjágeitungur (Dolichovespula norwegica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Trjágeitungur (Dolichovespula norwegica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Edwards, R. 1980. Social wasps. Their biology and control. Rentokil Ltd, Felcourt.398 bls.

Erling Ólafsson 2002. Stungur geitunga. Náttúrufræðingurinn 70: 197–204.

Erling Ólafsson 2008. Geitungar á Íslandi. Námsgagnastofnun, Reykjavík. 24 bls.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |