Birkikemba (Heringocrania unimaculella)

Distribution

Mið- og Norður-Evrópa.

Ísland: Landið suðvestanvert frá Hvanneyri í Borgarfirði austur í Fljótshlíð og til uppsveita Suðurlands, einnig Akureyri.

Life styles

Trjárækt og húsagarðar með birki (Betula pubescens) eru kjörlendi birkikembu. Fiðrildin eru á ferð á vorin en þau skríða úr púpum í fyrrihluta apríl og hverfa með öllu fyrir miðjan maí. flugtími er því mjög skammur. Á þessum tíma verpa þau á brum birkis og eggin klekjast þegar tré fara að laufgast. Lirfurnar smjúga þá inn í laufblöðin, koma sér þar fyrir og éta innvefi þeirra. Eftir því sem lirfurnar dafna taka blöðin að sölna og á endanum standa einungis eftir ysta lag efra- og neðraborðs blaðs sem blæs út eins og brúnn belgur. Fullvaxnar lirfur skríða út úr belgnum og hverfa niður í svörð þar sem þær púpa sig og bíða næsta vors á því stigi. Birkikemba liggur í vetrardvala á púpustigi.

In General

Birkikemba fannst fyrst í Hveragerði 2005 og var þá þegar orðin algeng í trjáræktarreit undir Hamrinum og nálægum görðum. Þaðan dreifðist hún fljótt um Ölfusið allt austur að Nátthaga. Hún fannst svo fremst í Fossvogi í Reykjavík 2007, fjölgaði þar hratt og dreifðist upp í Fossvogskirkjugarð, í skógræktarstöðina í Fossvogsdalnum og var tveim árum síðar komin upp á Kópavogshálsinn nálægt Borgarholti. Vorið 2012 varð ljóst að birkikembu hafði fjölgað til mikilla muna og dreifst um mun stærra svæði. Hún var þá komin austur að Elliðavogi og austur fyrir Elliðaár, svo og suður í Hafnarfjörð. Einnig fannst hún þá í trjárækt Skógræktar ríkisins á Mógilsá í Kollafirði, sömuleiðis í görðum á Selfossi. Upp úr þessu varð dreifingin hröð. Suðurlandsundirlendið allt varð undirlagt allt austur í Fljótshlíð. Var staðfest í Borgarfirði árið 2014 og á Akureyri 2017. Það er illur fengur af þessum nýliða í íslensku fánunni. Skaðsemi á birki er veruleg af völdum þessa fiðrildis ekki aðeins í görðum heldur einnig í birkiskógum á landsbyggðinni.

Birkikemba (6 mm) er smávaxið fiðrildi. Höfuð og frambolur eru þéttvaxin löngum svörtum hárum og eru sem úfinn brúskur. Vængirnir liggja eins og þakris yfir afturbolnum. Það sindrar af gylltum framvængjunum. Á hvorum þeirra er áberandi hvítur blettur sem gerir tegundina auðþekkta frá öðrum sem fljúga á vorin.

Distribution map

Images

References

Global Biodiversity Information Facility (GBIF). Heringocrania unimaculella. (https://www.gbif.org/species/1731858)

Karsholt O. & J. Razowski 1996. The Lepidoptera of Europe. A Distributional Checklist. Apollo Books, Stenstrup. 380 bls.

Author

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 21.nóvember 2013, 4. maí 2018

Biota

Tegund (Species)
Birkikemba (Heringocrania unimaculella)