Fræfeti (Eupithecia plumbeolata)

Distribution

Evrópa, frá Miðjarðarhafslöndunum norðanverðum og norður eftir Skandinavíu, austur um Rússland og sunnanverða Síberíu til Kyrrhafs.

Ísland: Suðurland, frá Hvalfirði austur í Öræfi, um miðbik Austfjarða, þ.e. á Völlunum við Egilsstaði og niðri á fjörðum í Fjarðabyggð; einn fundarstaður í Kelduhverfi.

Life styles

Þurr valllendi og blómlendi eru kjörlendi fræfeta. Flugtími hefst viku af júní og nær til loka júlí með hámark um mánaðamót júní og júlí. Lirfurnar vaxa upp síðsumars og nærast á óþroskuðum fræjum lokasjóðs (Rhynanthus minor). Þær púpa sig í sverðinum og brúar tegundin veturinn á því þroskastigi.

In General

Þó fræfeti finnist víða á Suðurlandi ber þó að öllu jöfnu lítið á honum. Mest hefur sést af honum á Völlunum á Austurlandi. Flugtími hans og mófeta (E. satyrata) skarast að nokkru leyti en hámark flugtíma fræfetans er töluvert seinna á ferð. Tegundirnar tvær eru afar líkar útliti og kann fræfeti því auðveldlega að hverfa innan um mófetana en af þeim er fjöldinn miklu meiri.

Grunnlitur vængja er samur hjá fræfeta og mófeta, en á óslitnum eintökum má greina frábrugðið fíngert mynstur á framvængjum. Nokkur munur er einnig á lögun framvængjanna. Vængendinn er ávalari á fræfeta, ekki odddreginn, og útjaðarinn bogadregnari en á mófeta.

Distribution map

References

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Author

Erling Ólafsson 2. mars 2011

Biota

Tegund (Species)
Fræfeti (Eupithecia plumbeolata)