Möðrufeti (Epirrhoe alternata)

Distribution

Gjörvöll Evrópa, frá Miðjarðarhafi til nyrstu héraða Skandinavíu, austur eftir N- og M-Asíu til Kamchatka.

Ísland: Láglendi um land allt, algengari á landinu sunnanverðu en norðanlands, Ófundinn á miðhálendinu.

Life styles

Kjarrlendi og blómlendi eru kjörlendi möðrufeta og lifir hann þar á möðrum (Galium). Í Evrópu eru kynslóðir fiðrilda tvær á sumri nema nyrst þar sem aðeins ein kynslóð nær að þroskast. Fyrri kynslóð flýgur frá lokum maí og fram í byrjun júlí en sú seinni frá lokum júlí og fram til september. Lirfur hennar ná fullum þroska og púpur leggjast í vetrardvala. Hérlendis er um eina kynslóð að ræða sem fer á flug viku af júní og flýgur til loka júlí. Lirfurnar vaxa upp frá miðju sumri og púpa sig er fullum vexti er náð. Púpan brúar veturinn.

In General

Möðrufeti verður að teljast með fallegri fiðrildum hér á landi. Hann er auk þess algengur og áberandi á sólríkum góðviðrisdögum, ekki síst í kjarri þar sem möðrur eru áberandi í undirgróðrinum. Hann er á ferð snemmsumars eins og önnur fiðrildi sem þreyja vetur á púpustigi. Möðrufeti er engum öðrum fetum líkur og auðþekktur. Á framvængjum er litmynstrið skýrt og afgerandi. Aftan við dökka vængrót tekur við ljóst belti, þá áberandi dökkt belti yfir miðjan vænginn með bylgjóttum afturjaðri og svörtum punkti nálægt vængjaðri. Aftan við það er aftur ljóst belti en vængjaðarinn er dökkur í mismunandi brúnum og grábrúnum litum.

Distribution map

References

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Author

Erling Ólafsson 24. júní 2010, 12. mars 2013.

Biota

Tegund (Species)
Möðrufeti (Epirrhoe alternata)