Mýrfeti (Xanthorhoe designata)

Distribution

Gjörvöll Evrópa, frá Miðjarðarhafi til nyrstu héraða Skandinavíu, austur eftir norðanverðri Asíu til Japans.

Ísland: Láglendi um land allt, mun algengari á landinu sunnanverðu en norðanlands, á miðhálendinu fundinn við sunnanverðan Kjalveg; Hvítárnes, Kjalhraun, Blánípuver.

Life styles

Mýrar og deiglendi eru kjörlendi mýrfeta. Hann lifir á plöntum af krossblómaætt og er hrafnaklukka (Cardamine pratensis) talin mikilvægasta fæðuplantan. Á suðlægari slóðum í Evrópu eru tvær kynslóðir fiðrilda á sumri. Fyrri kynslóðin flýgur frá miðjum maí og fram í miðjan júní, seinni kynslóðin frá miðjum júlí og til ágústloka. Lirfur seinni kynslóðar púpa sig á haustin og brúa púpurnar veturinn. Á norðlægum slóðum eins og hér næst aðeins ein kynslóð. Flugtími er frá byrjun júní og til loka júlí. Mestur er fjöldinn í seinni hluta júní og til mánaðamótanna. Flugtíma lýkur fyrr á Suðurlandi en norðar á landinu. Greina má vísi að annarri kynslóð því fáeinir mýrfetar hafa fundist í Fljótshlíð á tímabilinu 28. ágúst til 10. september. Litlar líkur eru til þess þeir geti af sér lirfur sem ná að vaxa til fulls þroska.

In General

Mýrfeti er með fyrstu fetum til að fljúga snemma sumars. Hann sést sjaldan í teljandi fjölda. Algengast er að stök fiðrildi hrekist upp þegar farið er um votlendi. Mýrfeti er nokkuð auðþekktur þó hann líkist túnfeta. Hann er ívið minni en sá síðarnefndi, áþekkur á lit, vængir ljósgrábrúnir og framvængir með vel afmörkuðu belti yfir framvængina miðja í breytilegum brúnum litum, brúnna en á túnfeta (Xanthorhoe decoloraria). Á framrönd framvængja, nálægt vængendum er brúnleitur ferningslaga blettur en á þeim stað hefur túnfeti tvö strikmerki. Fálmarar á karldýrum mýrfeta eru mun minna fjaðraðir en fálmarar túnfeta.

Distribution map

Images

References

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Author

Erling Ólafsson 24. júní 2010

Biota

Tegund (Species)
Mýrfeti (Xanthorhoe designata)