Skógafeti (Erannis defoliaria)

Skógafeti – Erannis defoliaria
Picture: Erling Ólafsson
Skógafeti (Erannis defoliaria), karldýr. 15 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa nema allra nyrst og syðst, austur um Rússland og miðbik Asíu allt til Kína.

Ísland: Öræfasveit og Suðursveit í A-Skaftafellssýslu, Hrífunes í V-Skaftafellssýslu, Laugarás í Árnessýslu.

Lífshættir

Skógafeti lifir í laufskógum. Lirfurnar klekjast úr eggjum á vorin, vaxa upp fyrri hluta sumars, í júní og júlí, og nærast á laufblöðum ýmissa trjátegunda. Hér á landi er birki (Betula pubescens) aðal fæðuplantan, en lirfur hafa einnig fundist á ilmreyni (Sorbus acuparia). Í nágrannalöndunum finnst skógarfeti meðal annars á eik (Quercus), beiki (Fagus), víði (Salix), kirsuberjatrjám (Prunus) og ýmsum ávaxtatrjám. Fullvaxnar lirfur hverfa af trjánum og púpa sig í gróðursverði skógabotnanna. Fiðrildin skríða ekki úr púpum fyrr en haustar. Þekktur flugtími hér er frá um 20. september til um 20. nóvember með hámarki í fjórðu viku október. Kvendýrin verpa á trén og brúa eggin veturinn. Skógafeti er kunnur fyrir að valda skaða í laufskógum sum árin, en miklar stofnsveiflur koma fram. Af og til verður fjöldinn svo mikill og ummerkin slík að skógar nánast aflaufgast, samanber fræðiheitið sem gefur skaðvaldinn til; defoliaria merkir þann sem aflaufgar tré.

Almennt

Skógafeti fannst fyrst hér á landi í Skaftafelli árið 1938. Lengi vel þekktist hann eingöngu í Austur-Skaftafellssýslu. Árið 1988 fannst hann í birkiskógi í Hrífunesi í Skaftártungu og svo mjög óvænt í Laugarási í Biskupstungum haustið 2016. Sama haust bárust fregnir af honum við Laugarvatn.

Ljóst má vera að skógafeti hefur borist til landsins af mannavöldum á fyrri hluta síðustu aldar þó engin skýring á því sé haldbær. Kendýrin eru nefnilega vængjalaus. Dreifing skógafetans innanlands þarf því einnig að verða með aðstoð manna fyrst og fremst, einkum þá með flutningi trjáa milli landshluta. Landnám tegundarinnar í uppsveitum Árnessýslu kom á óvart. Fullt eins líklegt má telja að hann hafi borist þangað með innfluttum trjáplöntum erlendis frá.

Miklir stofnstærðartoppar eru þekktir í nágrannalöndunum með tilheyrandi skemmdum á lauftrjám. Hér á landi eru slíkir toppar þekktir árin 1943 og 1951 en þá urðu skemmdir meiriháttar á birkiskógum í Öræfum. Árin 2002 og 2003 var stofninn einnig sterkur þó skaðsemi hafi verið minni.

Skógafeti er stórvaxinn feti (bolur 15 mm, vænghaf 40 mm), einn sá stæsti hér á landi. Hann líkist engri annarri tegund, oddregnir framvængir ryðgulir á lit með ljósari breiðan bekk yfir miðjuna og lítinn dökkan díl í bekknum. Afturvængir eru ljósari einlitir, drappleitir, en með litlum dökkum díl. Kvendýr eru nokkuð flikrótt gráleit, vænglaus, en þó má greina örlitla vængvísa ef grannt er skoðað. Lirfurnar eru dæmigerðar fetalirfur með þrjú pör gangfóta á frambol og tvö pör gangvartna aftast á afturbol. Fara um með því að skjóta up kryppu og feta sig áfram. Þær eru því sem næst svartar á lit, stundum með nokkuð ljósari beltum.

Skógafeti – Erannis defoliaria
Skógafeti (Erannis defoliaria) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |