Dílaygla (Peridroma saucia)

Distribution

Víða um heim; Evrópa og Asía, N-Afríka, N- og S-Ameríka. Vegna flökkueðlis finnst tegundin mun víðar en þar sem hún elst upp. Í Evrópu eru raunheimkynni syðst í álfunni en þaðan dreifist hún norður á bóginn til sunnanverðrar Skandinavíu og Finnlands en dílaygla er tiltölulega fátíður gestur á Norðurlöndum. Hefur og fundist í Færeyjum.

Ísland: Dílaygla hefur fundist á allnokkrum stöðum allra syðst á landinu, frá höfuðborgarsvæðinu austur í Öræfi.

Life styles

Dílaygla flýgur síðsumars og langt fram á haustið. Hún liggur væntanlega í dvala á fullorðinsstigi því fiðrildi birtast aftur á vorin. Lirfur vaxa upp fyrri hluta sumars og púpa sig fullvaxnar í spunahylki í jarðvegi. Þær leggja sér til munns allskyns jurtkenndar plöntur. Dæmi eru um það að gestkomandi dílayglur snemma sumars í nágrannalöndunum geti af sér nýja kynslóð sem á þó ekki möguleika á að lifa veturinn af.

In General

Tegundin er furðu tíður gestur hér á landi ef horft er til þess hve fátíð hún er á hinum Norðurlöndunum nema helst í Danmörku. Elsta eintak sem varðveitt er fannst í Reykjavík í ágúst 1932. Hér hefur dílayglu orðið vart frá seinnihluta júlí og fram í nóvember, í mestum fjölda frá miðjum september til miðs október. Einnig hafa dílayglur fundist í lok maí og byrjun júní. Eitt dæmi er til þess að tegundin hafi náð að fjölga sér hér á landi. Lirfa fannst haustið 1994 undir Eyjafjöllum sem var alin þar til hún púpaði sig. Þann 15. nóvember skreið svo dílaygla úr púpunni.

Dílaygla er einkennalítil ygla. Framvængir eru grábrúnir, gulbrúnir eða bronsleitir með lítt merkjanlegu mynstri. Hún þekkist helst á litlum svörtum dílum sem raðast á frambrún framvængja.

Distribution map

References

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Author

Erling Ólafsson 14. janúar 2010, 12. mars 2013.

Biota

Tegund (Species)
Dílaygla (Peridroma saucia)