Sandygla (Hypocoena stigmatica)

Distribution

Í Evrópu eingöngu á Íslandi og í Færeyjum, annars í norðanverðri Asíu, frá Úralfjöllum og Baikal austur til Mongólíu og Okhotskahafs.

Ísland: Suðurland frá Hvalfirði austur að Kvískerj-um í Öræfum, einnig Gufuskálar á Snæfellsnesi og Kópasker við Öxarfjörð.

Life styles

Melgrashólar eru kjörlendi sandyglu. Slík svæði eru hvað útbreiddust og samfelldust með suðurströndinni og á sunnlenskum söndum og er sandyglur helst þar að finna. Lirfurnar eru taldar éta rætur eða neðanjarðarhluta hávaxinna og grófra grastegunda sem einkenna sandhóla á strandsvæðum eins og melgresi (Leymus arenarius) og Ammophila tegundir. Hér byggir hún því afkomu sína á melgresi. Flugtími sandyglu nær frá miðjum júní og fram í ágústbyrjun með hámark í byrjun júlí. Undantekning er eintak af Norðausturlandi sem fannst í byrjun september fyrir langt löngu síðan. Um lirfurnar er lítið vitað en miðað við flugtímann ættu þær að vaxa upp síðsumars. Líkast til leggjast þær í vetrarvala hálfvaxnar, halda vextinum áfram að honum loknum og púpa sig snemma næsta sumars.

In General

Heimsútbreiðsla sandyglu er undarleg. Tegundin var aðeins þekkt frá norðanverðri Asíu þegar eitt eintak fannst hér á landi 2. september árið 1937 á Kópaskeri. Reyndar var eintakið það frábrugðið þeim asísku að það var talið tilheyra áður ólýstri tegund, sem síðan var því lýst og gefið heitið Hypocaena dispersa Wolff, 1970. Skömmu síðar kom í ljós að sá gjörningur var rangur og um sömu tegund að ræða og finnst í Asíu. Þær eru nú skilgreindar sem sitthvor undirtegundin, H. stigmatica dispersa hér á landi.

Í lok júní 1976 fannst sandyglan á ný, nú á Skeiðarársandi og var þar töluvert af henni. Í kjölfarið hefur verið litið eftir sandyglum víðar á söndunum sunnlensku og hún fundist þar á allnokkrum stöðum. Athyglisvert er að 1995 fannst tegundin í melgresi í Surtsey en þar hefur hún náð fótfestu.

Í ljós kom að eintakið frá Kópaskeri var ekki það fyrsta sem fannst hér á landi. Í safni meistara Carls H. Lindroth í Gautaborg uppgötvaðist nefnilega fyrir um tuttugu árum síðan ógreint eintak sem hafði verið safnað í Meðallandi árið 1929 og reyndist vera sandygla.

Árið 1978 fannst sandygla á Sandoy í Færeyjum en þar er hún afar sjaldgæf. Sú þarlenska er talin sömu undirtegundar og sú íslenska. Það er undarlegt að tegundin skuli ekki finnast á meginlandi Evrópu en t.d. í N-Noregi má finna ákjósanleg búsvæði á Varangerskaganum.

Sandygla er frekar smávaxin yglutegund með einkennandi ljósar vængæðar á grábrúnum fleti framvægja sem verða því ljósstrikaðir langsum. Grunnlitur er breytilegur, oftast þó drappleitur en stundum dekkri. Lirfurnar eru óþekktar.

Distribution map

References

Bengtson, S.-A. 1982. Lavere dyr på land og i ferskvand. Í Nørrevang, A. & J. Lunde (ritstj.): Danmarks natur. 3. útg., 12: 123–141.

Elíasson, C. 1992. A contribution to the knowledge of the Iceland nocuid fauna (coll. Lindroth, Lepidoptera, Noctuidae) with new aspects on passive dispersal by ice-rafting. Ent. Tidskr. 113: 25–35.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1976. Sandygla (Photedes stigmatica Ev.) endurfundin á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 46: 118–120.

Erling Ólafsson & María Ingimarsdóttir 2009. The land-invertebrate fauna on Surtsey during 2002–2006. Surtsey Research 12: 113–128.

Gjelstrup, P. 2009. Chortodes stigmatica (Eversmann, 1855) (Lepidoptera, Noctuidae) – a moth new to Surtsey, 1995. Surtsey Research 12: 129–131.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1970. Hypocoena dispersa n.sp. (Lep. Noct.uidae) from Iceland. Ent. Meddr 38: 215-221.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Author

Erling Ólafsson 26. janúar 2011.

Biota

Tegund (Species)
Sandygla (Hypocoena stigmatica)