Silfurygla (Syngrapha interrogationis)

Distribution

Evrópa suður til Pýreneafjalla, austur um miðbik Asíu til Japans, norðanverð Norður-Ameríka.

Ísland: Láglendi um land allt, ófundin á miðhálendinu.

Life styles

Heiðalönd og lyngmóar eru kjörlendi silfuryglu. Lirfurnar nærast á bláberjalyngi (Vaccinium) og beitilyngi (Calluna vulgaris). Þær vaxa upp síðsumars, leggjast í vetrardvala og halda áfram vextinum að honum loknum. Flugtími er frá byrjun júlí og fram undir lok ágúst með hámark í fyrri helmingi ágústmánaðar.

In General

Silfurygla er  norðræn tegund, algeng í Skandinavíu til nyrstu héraða og í fjalllendi sunnar í álfunni. Svipaða sögu er að segja frá Norður-Ameríku en þar er hún útbreidd í Kanada og Alaska. Hér hefur silfurygla fundist á láglendi víða um land en fundarstaðir eru strjálir. Hámark flugtímans stendur frekar stutt yfir sem gerir tegundina vandfundnari.

Silfurygla (19 mm, vænghaf 36 mm) er auðgreind. Hún er í grunninn silfurgrá með dekkri flekkjum og ljósum saumum á framvængjum. Ólíkt öðrum yglufiðrildum er engan brúnleitan tón að finna nema á afturvængjum sem eru grábrúnir innan til en dökkbrúnir utan til. Á miðjum  framvæng er áberandi ljós blettur, nokkur óreglulegur í lögun. Hann minnir á gamma-laga blett gammayglunnar (Autographa gamma). Fremst á frambol er grannur svartur baugur og tveir hliðstæðir háir hreisturflögutoppar standa upp úr frambolnum aftar.

Distribution map

References

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1976. Þrjú flökkufiðrildi tímgast á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 46: 200–208.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmark Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Author

Erling Ólafsson 4. febrúar 2019.

Biota

Tegund (Species)
Silfurygla (Syngrapha interrogationis)