Þistilfiðrildi (Vanessa cardui)

Distribution

Þistilfiðrildi finnast öllum heimsálfum nema í S-Ameríku og á Suðurskautslandinu. Það segir þó ekki allt því fiðrildin eru gædd mikilli flökkunáttúru, leggjast gjarnan í langflug og berast þannig langt út fyrir uppeldisstöðvar sínar sem eru miklu takmarkaðri. Þannig berast þistilfiðrildi reglulega til Færeyja og Íslands og hafa jafnvel skotið upp kolli á Grænlandi og Svalbarða.

Ísland: Fjölmargir fundarstaðir á láglendi um land allt, flestir á landinu sunnanverðu en margir í öðrum landshlutum líka. Fáséð á hálendinu; Þjórsárver og sker í Breiðamerkurjökli.

Life styles

Ríkt flökkueðlið er mjög afgerandi fyrir lífshætti þistilfiðrildis. Uppeldisstöðvar þess í okkar heimshluta eru einkum í N-Afríku og Miðausturlöndum. Þaðan rása þau á sumri hverju norður eftir Evrópu, stundum í miklum fjölda og berast allt norður að Íshafi. Flugið hefst venjulega í lok maí og heldur áfram út júní en slitin og upplituð fiðrildi sjást áfram fram eftir júlí. Það er þó mjög breytilegt hvenær fiðrildin leggja upp og hver fjöldinn er hverju sinni. Fiðrildin verpa á leið sinni og jafnvel á norðlægum slóðum, eins og í Færeyjum og hér á landi, leggja drög að haustkynslóð sem síðan leitar suður á bóginn til átthaganna. Fersk og óslitin fiðrildi sem sjást síðsumars eru að öllu jöfnu afkomendur flækinga frá því fyrr um sumarið. Fiðrildin verpa eggjum á topp fæðuplantna, þ.e. þistla (Carduum, Circium), netla (Urtica) og einnig ýmissa annarra körfublóma, en þau klekjast á örfáum dögum. Nýklaktar lirfur koma sér síðan fyrir á neðra borði laufblaða og éta blaðholdið. Eftir fyrstu hamskipti spinna þær laufblöð saman utan um sig og éta inni í húsi sínu. Þegar þær eru fullvaxnar að þrem til fjórum vikum liðnum yfirgefa þær húsið og skríða óvarðar um plöntuna. Þær púpa sig fljótlega er þessu þroska stigi er náð. Lirfan spinnur þá afturendann fastan neðan á laufblöð eða greinar og púpar sig með framendann hangandi niður. Púpan klekst síðan að tveim vikum liðnum.

In General

Þistilfiðrildi hefur verið þekkt sem flækingur til landsins frá fornu fari en til eru skráð tilfelli allt aftur til ársins 1888. Það berst eflaust til landsins á sumri hverju en fjöldinn er afar breytilegur og háður veðrum og vindum þegar þau berast af leið norður eftir Evrópu og hrekjast út yfir opið haf. Algengast er að þistilfiðrildi berist til Íslands í júní og júlí. Þau sjást einnig í nokkrum mæli í ágúst og dvínandi allt til október. Þau alfyrstu hafa sést um miðjan maí.

Mörg dæmi eru um að umtalsverður fjöldi hafi borist hingað samtímis og að fiðrildin sjáist þá víða um land í kjölfar þess. Það nægir að nefna sumarið 2009 sem dæmi en þá kom til landsins mesti fjöldi þistilfiðrilda sem um getur.

Gríðarlegur fjöldi þistilfiðrilda lagði af stað norður á bóginn frá N-Afríku upp úr miðjum maí. Það vakti mikla athygli þegar þessi óvenju mikli fjöldi flæddi norður eftir Evrópu og var grannt fylgst með og tímasett hvenær fiðrildin mættu í löndum á leið sinni norður eftir álfunni og voru boð látin út ganga til fræði- og áhugamanna og þeir hvattir til að skrá vendilega komutíma og flugstefnur fiðrildanna. Skemmst er frá að segja að þistilfiðrildin bárust til Bretlandseyja 28. maí, Færeyja 30. maí og þau fyrstu náðu til Íslands 3. júní. Athygli vakti að svo margir dagar skildu líða á milli komu þeirra til Færeyja og Íslands en algengt er að þar skilji sólarhringur á milli þegar flækingsfiðrildi berast yfir hafið með vindum. Það vakti líka athygli að fiðrildin lentu á suðvestanverðu landinu en ekki á Suðausturlandi eins og algengast er með fiðrildakomur frá Evrópu. Það bendir til að þau hafi borist með vindum suður fyrir land og þaðan til lendingar á Suðvesturlandi. Þessi lykkja á leið hefur tafið för fiðrildanna verulega. Búast hefði mátt við og orkubirgðir þeirra hefðu þrotið á þessu gríðarlanga flugi en svo virtist ekki vera því mörg héldu áfram leið sinni og bárust á skömmum tíma norður eftir Vesturlandi og norður yfir Breiðafjörð. Smám saman birtust þistilfiðrildin svo í öðrum landshlutum. Önnur bylgja barst svo til landsins í lok júní en öllu minni.

Dæmi er þekkt um það að þistilfiðrildi hafi orpið hér á landi og getið af sér nýja kynslóð síðsumars. Slíkt var fyrst staðfest í kjölfar stórrar göngu 1949 og allnokkrum sinnum á seinni tímum, t.d. í Öræfum 1996. Þetta endurtók sig ekki óvænt 2009 og fundust lirfur á Skógasandi og í Dölum en þær hafa örugglega vaxið upp mun víðar á sunnan- og vestanverðu landinu þó ekki hafi verið eftir því tekið sérstaklega. Hér á landi hafa lirfurnar góða lyst á alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis) en á henni hafa þær fundist fyrst og fremst. Nokkuð bar svo á ferskum þistilfiðrildum á flugi snemma um haustið sem án efa voru afkomendur flækinganna. Væntanlega hafa þau leitað suður á bóg og fáein heppin e.t.v. náð þar landi. Það er næsta víst að dauðinn einn bíður haustkynslóðar hér á landi því þistilfiðrildi eiga engan möguleika á að lifa veturinn af á norðurslóðum.

Þistilfiðrildi eru afar skrautleg og auðþekkt á litmynstri vængjanna. Grunnlitur þeirra er appelsínugulur. Framvængir eru dökkir til endanna, brúnir og svartir með hvítum flekkjum. Með jöðrum afturvængja eru þrjár raðir af dökkum dílum. Fiðrildin sækja í áberandi lit blóm sem gefa vel af blómasafa og eru þau augnayndi þar sem þau flögra á milli blóma til að sækja safa þeirra með öngum mjóum. Lirfurnar eru breytilegar á lit, misdökkar, oft svargráar, með tveim gulum hliðarrákum, misgreinilegum, og alsettar ljósum löngum hárum og burstum. Púpan er nokkuð breytileg á lit en oft fallega gyllt.

Distribution map

Images

References

Butterfly conservation. Saving butterflies, moths, and their habitats. A-Z of Butterflies. Painted Lady. http://www.butterfly-conservation.org/Butterfly/32/Butterfly.html?ButterflyId=38 [skoðað 24.2.2010]

Butterfly conservation. Saving butterflies, moths, and their habitats. Painted Lady. http://www.butterfly-conservation.org/sightings/1097/painted_lady_butterfly.html [skoðað 24.2.2010]

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Hálfdán Björnsson 1999. Þistilfiðrildi verpa á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 69: 38.

Jensen, Jens-Kjeld. Insekter og andre dyr. http://www.jenskjeld.info/DK_side/insekt.htm [skoðað 24.2.2010]

Kaaber, S. 1997. Iagtagelser under tre sommerfulgetræk over Færøerne i 1996. Ent. Meddr 65:109–118.

Náttúrufræðistofnun Íslands 2009. Þistilfiðrildi koma - upplýsinga óskað. /frettir/nr/942 [skoðað 24.2.2010]

Stoltze, M. 1996. Danske dagsommerfugle. Gyllendal, Kaupmannahöfn. 383 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Author

Erling Ólafsson 24. febrúar 2010.

Biota

Tegund (Species)
Þistilfiðrildi (Vanessa cardui)