Smáraskjanni (Colias croceus)

Smáraskjanni - Colias croceus
Picture: Erling Ólafsson

Smáraskjanni (Colias croceur), safneintak. Bolur 19 mm, vænghaf 42 mm. ©EÓ

Smáraskjanni - Colias croceus
Picture: Erling Ólafsson

Smáraskjanni (Colias croceus). ©EÓ

Útbreiðsla

Miðjarðarhafslönd Evrópu og Afríku, austur um Tyrkland til Afganistans og Indlands og miðbiks Síberíu. Mikil flökkukind sem flýgur allt norður til Bretlandseyja, S-Noregs og S-Finnlands, en er ekki talin þrauka vetur norðan Alpafjalla.

Ísland: Fágætur slæðingur; Reykjavík, Garðabær.

Lífshættir

Smáraskjanni er suðlæg tegund sem flýgur nánast allt árið í nokkrum kynslóðum í heimahögum við Miðjarðarhaf. Flökkudýr fara að sjást í N-Evrópu þegar í maí en í langmestum fjölda í ágúst og september. Eggjum er orpið allt árið á lauf fæðuplantna og við hagstæð skilyrði ná lirfurnar að púpa sig eftir eins mánaðar vöxt. Púpustigið varir í tvær til þrjár vikur. Alls geta kynslóðir orðið þrjár á ári. Smáraskjanni lifir fyrst og fremst á bæði villtum og ræktuðum smára (Trifolium) einnig á alfalfa (Medicago sativa).

Almennt

Smáraskjanni hefur borist þrisvar til landsins svo kunnugt sé og eru öll eintökin varðveitt í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það fyrsta fannst í bíl Jarðborana ríkisins sem var fluttur til landsins frá Azoreyjum í febrúar 2006. Í maí 2008 fannst smáraskjanni í lokaðri salatpakkningu sem keypt var í verslun í Reykjavík. Samkvæmt merkingum var um íslenska framleiðslu að ræða, en það var ósannfærandi með þessum fylgifiski! Þriðja fiðrildið fannst svo í júlí 2011 einnig í lokaðri salatpakkningu. Sú var keypt í verslun í Garðabæ.

Smáraskjanni er augnakonfekt. Efra borð vængja er gult til rauðgult, stundum sem appelsína, með dökkbrúna til svarta jaðra, framvængir með lítinn dökkan, miðlægan díl en afturvængir sambærilegan rauðan díl. Neðraborð vængja er hins vegar algult, framvængir enn með svartan díl en rauði díll afturvængja er þar hvítur með rauðum hring umhverfis.

Smáraskjanni (Colias croceus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Smáraskjanni (Colias croceus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Hermansen, K. 2010. Dagsommerfugle i Danmark. Danmarks Dyreliv, Bind 11. Apollo Books, Stenstrup. 223 bls.

Stoltze, M. 1996. Danske dagsommerfugle. Gyllendal, Kaupmannahöfn. 383 bls.

Wikipedia. Coleas croceus. http://en.wikipedia.org/wiki/Colias_croceus [skoðað 14.3.2012]

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |