Kóngasvarmi (Agrius convolvuli)

Kóngasvarmi - Agrius convolvuli
Picture: Erling Ólafsson
Kóngasvarmi. 50 mm (bolur). ©EÓ

Útbreiðsla

S-Evrópa, Asía, Afríka og Ástralía. Náttúruleg heimkynni heittempruðum löndum og hitabeltislöndum. Flækingur víða utan heimkynnanna.

Ísland: Fundinn á láglendi í öllum landshlutum, langflestir fundarstaðir á landinu sunnanverðu.

Lífshættir

Kóngasvarmi er fluggarpur sem oft leggst í langflug frá náttúrulegum heimkynnum á heittempruðum svæðum og hitabeltislöndum. Hann getur flogið á 55 km hraða og hagstæðir vindar bæta um betur. Í réttum heimkynnum þroskast nokkrar kynslóðir á ári. Þó flakkið eigi sér einkum stað síðsumars og á haustin berst hann stöku sinnum norður á bóg fyrr og getur þá jafnvel náð að geta af sér nýja kynslóð í nýjum högum. Í heimahögum finnst kóngasvarmi í allskyns opnu landi en forðast lokaða skóga. Í rökkri sækir hann blómasafa í lyktarsterk blóm á nóttinni, sveimar þá nær kyrr í loftinu við blómin líkt og kólibrífugl og teygir útréttan, langan sogranann ofan í blómið. Lirfurnar éta akurklukku (Convolvulus arvensis) öðrum plöntum fremur.

Almennt

Kóngasvarmi er nánast árlegur flækingur til Íslands og stundum berst hingað nokkur fjöldi samtímis. Fyrsta tímasetta tilvikið er frá 1899. Kóngasvarmi dylst engum þar sem hann fer því hann er eitt stærsta skordýr sem hingað berst, með vænghaf allt að 12 cm. Hann er þó fyrst og fremst á ferli í myrkri og getur þá farið huldu höfði. Hann á það til að fljúga á móti ljósi inn um opna glugga. Í ræktarlegum görðum kann hann að staldra við einkum þar sem skógartoppur (Lonicera periclymenum) stendur í ilmandi blóma síðsumars. Kóngasvarmi hefur fundist hérlendis frá lokum júlí og nokkuð fram í október. Hann er auðþekktur á stærðinni og hefur stundum verið mistekinn fyrir fugl. Vængirnir eru gráir með flekkjum og beltum í mismunandi tónum og á afturbol erum hliðstæðir bleikir blettir á hverjum lið.

Kóngasvarmi (Agrius convolvuli) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Kóngasvarmi (Agrius convolvuli) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Hydén, N., K. Jilg & T. Östman 2006. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Fjärilar: Ädelspinnare – tofsspinnare. Lepidoptera: Lasiocampidae – Lymantriidae. Artdatabanken, SLU, Uppsala. 480 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |