Svarmfiðrildaætt (Sphingidae)

Kólibrísvarmi - Macroglossum stellatarum
Picture: Erling Ólafsson
Kólibrísvarmi (Macroglossum stellatarum) sendir langan sograna sinn eftir blómasafa. Portoroz í Slóveníu, 10. ágúst 2015.

Almennt

Svarmfiðrildi eða svarmar eru einstaklega áhugaverð fiðrildi, en í heiminum eru þekktar um 1.450 tegundir. Svarmar eru flest stórir, jafnvel risastór fiðrildi. Langflestar tegundanna er að finna í hitabeltislöndum. Svarmar eru sérstakir að mörgu leyti og auðþekktir frá öðrum gerðum fiðrilda. Þeir eru einkar hraðfleygir enda stuðla vænglögun og sterkir flugvöðvar að því.  Bolurinn er straumlínulaga, þykkur og mikill, bæði frambolur og afturbolur. Höfuð er stórt með stórum augum og munnlimir mynda geysilangan sograna sem rúllast upp þegar ekki í notkun. Fálmarar sterkir og stinnir. Vængir eru langir og mjóir, oddmjóir, framvængir miklu lengri en tiltölulega litlir afturvængir, sterkar vængæðar gera þá afar stinna. Litarfar er fjölbreytilegt, stundum einsleitt, stundum einkar litskrúðugt, stundum einsleitir framvængir en skrautlegir afturvængir sem sjást ekki undir framvængjunum í hvíld. Stundum er bolurinn einnig með sérkennilegu litmynstri. Fullorðnir svarmar sækja sér blómasafa sem orkugjafa. Þeir stoppa á flugi við blómin, með svo tíðum vængjaburði að hvinur heyrist, og teygja langan sograna sinn niður í spora blómanna. Minna þá einna helst á kólibrífugla. Stórar lirfurnar oft með ólíkindum skrautlegar og með mislöngum sterklegum halabroddi.

Svarmfiðrildi eru langflest suðræn. Sumar tegundir eru gæddar flökkueðli og fljúga frá heimkynnum langar vegalengdir til norðlægari slóða á sumrin. Engir svarmar lifa á Íslandi en 12 tegundir hafa samt fundist hér. Fimm þeirra hafa staðfest borist með vindum, aðrar að öllum líkindum með innflutningi.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |