Birkivefari (Acleris notana)

Distribution

Mestöll Evrópa; Færeyjar, Bretlandseyjar og til N-Skandinavíu. N-Ameríka. Vegna ruglings við náskyldar tegundir ríkir nokkur óvissa um útbreiðsluna.

Ísland: Láglendi um land allt, mun algengari og fundarstaðir fleiri á landinu sunnanverðu en um landið norðanvert.

Life styles

Birkiskógar og birkikjarr eru kjörlendi birkivefara enda nærast lirfurnar á birkilaufum (Betula pubescens). Birkivefari dormar vetrardvalann á fullorðinsstigi. Fiðrildin fara á stjá strax á útmánuðum eða í seinnihluta febrúar ef hlánar og eru vorfiðrildin á flugi nokkuð fram eftir júní, með hámarki í apríl/maí. Þá verpa þau á brum birkitrjánna og lirfurnar klekjast úr eggjum er brumin springa út. Lirfurnar vaxa upp í júní og júlí í skjóli á milli laufblaða sem þær vefa saman með silkiþráðum sínum. Þær púpa sig síðan inni í skýli sínu eftir að hafa ofið um sig spunahjúp. Fiðrildin fara að skríða úr púpum í lok ágúst. Fjöldi haustfiðrildanna nær hámarki í seinnihluta september og kunna þau að sjást á flugi nokkuð fram í nóvember ef vel viðrar. Þau leggjast í vetrardvala, t.d. undir föllnum laufblöðum á jörðinni. Á suðlægari slóðum klekjast tvær kynslóðir fiðrilda á ári en aðeins ein norðar, t.d. hér á landi og í Skotlandi.

In General

Umtalsverð áraskipti eru af birkivefara. Stundum getur staðbundinn fjöldi orðið svo mikill, t.d. á Suðurlandi og í Borgarfirði, að umtalsverðar skemmdir verða á birkiskógum af völdum lirfanna. Áhrifanna kann jafnvel að gæta næsta ár á eftir en oftast endurheimta skógarnir góða heilsu á nýjan leik.

Birkivefari situr lengstum í trjánum á daginn en hrekst á flug ef styggð kemur að. Hann er frekar smávaxinn í samanburði við aðra vefara og tiltölulega auðþekktur. Aðfelldir vængir liggja nær flatir yfir bolnum en mynda ekki ávalt ris. Framvængirnir eru breiðir og þverstýfðir til endanna, ekki odddregnir. Litur er nokkuð breytilegur, oft ryðrauður, brúnn, gulbrúnn, framvængir stundum flikróttir. Fiðrildin falla mjög vel að haustlitum birkilaufanna. Eftir vetrardvalann eru fiðrildin gjarnan mjög slitin og grá á lit. Lirfurnar eru ljósleitar, gráleitar, grágrænar, með dökkt höfuð og litla dökka díla á bolnum.

Distribution map

Images

References

Bradly, J.D., W.G. Tremewan & A. Smith 1973. British Tortriciod Moths. Cochylidae and Tortricidae: Tortricinae. The Ray Society, London. 251 bls.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Hálfdán Björnsson 1968. Íslensk fiðrildi í skógi og runnum. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1968: 22–25.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls. 

Author

Erling Ólafsson 21. apríl 2010.

Biota

Tegund (Species)
Birkivefari (Acleris notana)