Beinvængjur (Orthoptera)

Almennt

Beinvængur skiptast í tvo nokkuð ólíka undirættbálka, engisprettur (Caelifera) og krybbur (Ensifera). Þær eru meðalstór til stór, stundum mjög stór skordýr. Bolurinn er tiltölulega gildur, nokkuð jafnbreiður fram og aftur. Frambolur er sterkbyggður, stór hálsskjöldur fyrsta liðs bolsins hans hylur liðinn alveg og nær aftur yfir vængrætur á öðrum lið sem er mun minni. Framvængir mjóir leðurkenndir, ýmist flatir yfir afturbol eða liggja aftur með hliðum jafnvel nokkuð aftur fyrir afturbol. Afturbolur hefur tvö stutt, óliðskipt skott. Breiðir og himnukenndir afturvængir liggja samanbrotnir undir framvængjum í hvíld. Sumar beinvængjur eru vænglausar. Höfuð er einkar stórt, nánast nautslegt, samsett augu stór, fálmarar grannir meðallangir til mjög langir, jafnvel mun lengri en bolurinn, kjálkar öflugir bitkjálkar. Fætur einkennandi, einkum stórir og sterkir afturfætur sem gagnast dýrunum til langra stökka, yfirleitt alsettir sterkum burstum. Flestar beinvængjur gefa frá sér hávært hljóð, ýmist með því að nudda saman vængjum eða vængjum við fætur. Hljóðhimna er annað hvort á lærlið framfóta eða á fyrsta lið afturbols. Hljóð eru einkennandi fyrir hverja tegund og tryggja samskipti kynja.

Langflestar beinvængjur eru grasætur á öllum þroskastigum og dæmi eru um afkastamikla skaðvalda á ökrum. Sumar eru alætur, sem lifa á gróðri, jafnt ferskum sem rotnandi, öðrum smádýrum og hræjum. Aðrar eru fyrst og fremst rándýr.

Í heiminum eru yfir 20.000 tegundir þekktar. Í Evrópu eru 15 ættir. Beinvængjur lifa ekki á Íslandi að staðaldri, en 4 ættir hafa fundist hér og 6 tegundir verið nafngreindar. Ein krybbutegund lifði hér í gróðurhúsum fyrir áratugum síðan, aðrar tegundir hafa borist með varningi.

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |