Landselur (Phoca vitulina)

Distribution

Landselur er algengur og útbreiddur víða um norðanvert Atlantshaf, nyrsta hluta Kyrrahafs og þess hluta Norður-Íshafsins sem Golfstraumurinn nær til. Hann er algengasta selategundin við Ísland en mest er af landsel við norðvesturhluta landsins. Einnig eru landselir nokkuð áberandi við suðausturströndina og á Austfjörðum þar sem stórar ár falla til sjávar. Landselslátur eru dreifð um allt land en ef nefna á einstök svæði eru látrin við Vatnsnes, á Ströndum, við mynni Lagafljóts og á Skeiðarársandi afar mikilvæg.

Nánar er fjallað um útbreiðslu landsels í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar Íslands nr. 56, Selalátur við strendur Íslands og í kortasjá.

Population

Landselir við ísland teljast til einangraðs og afmarkaðs stofns sem er erfðafræðilega aðskilinn frá öðrum landselum í norðaustur Atlantshafi (Andersen o.fl. 2011). Stofnstærð íslenskra landsela er metin með tölfræðilegri úrvinnslu á niðurstöðum talninga sem hafa farið fram með reglubundnum hætti frá 1980. Íslenski landselstofninn var metinn 10.319 (CI 95% = 6.733-13.906) árið 2020 (Sandra M. Granquist 2021) en 9.434 (Cl 95% = 6.149-12.7266) árið 2018 (Sandra M. Granquist og Erlingur Hauksson 2019). Þetta er mikil fækkun frá upphafi talninga árið 1980 er stofninn var metinn um 33.000 dýr. Mesta fækkunin átti sér stað á áttunda áratugnum en á milli 1980 og 1989 minnkaði stofninn um rúman helming (sjá mynd).

Life styles

Landselir leita í látur í apríl til maí og halda þar til fram á sumar, þ.e. meðan kæping stendur yfir en hámark hennar er um miðjan maí. Urtan kæpir yfirleitt einum kóp, elur í um fjórar vikur og yfirgefur hann að því loknu. Þegar vika er liðin frá kæpingu fer urtan að jafnaði annan hvern dag til sjávar í ætisleit og skilur kópinn eftir í fjörunni. Viðvera í látrunum eykst aftur í lok sumars þegar háraskipting fer fram og stendur uns fengitíma lýkur seint um haustið, í september til október.

Description

Landselir eru kubbslega vaxnir með tiltölulega rúnnað höfuð og hundslegt andlit. Meðallengd fullvaxinna landselsbrimla við Ísland er 1,7 m og meðalþyngdin er 97 kg en urturnar eru nokkuð minni, eða 1,6 m og 93 kg. Liturinn er stein- eða gulgrár á baki, stundum með hringlaga blettum, en ljósari litur á kvið. Aldur íslenskra landsela er allt að 36 ár. Urtur verða nokkru eldri en brimlar; þær verða kynþroska 3-5 ára en brimlarnir um 2-4 árum seinna. 

Shortlist

EN (í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
EN LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd: 14,8 ár (IUCN). Tímabil sem mat miðast við eru þrjár kynslóðir (45 ár). Einungis eru til upplýsingar um stofnstærð fyrir tímabilið 1980–2018. Landsel fækkaði um 69% á þessu 40 ára tímabili, eða rúmlega 2,9% fækkun á ári. Framreiknaðar stofnbreytingar, miðað við áframhaldandi árlega fækkun næstu 5 árin myndu leiða til 73,3% fækkunar á þremur kynslóðum. Í tilfelli landsels, þrátt fyrir að öryggismörk áætlaðrar stofnstærðar séu frekar víð, nægir þessi fækkun til rökstuðnings til að skipa landsel í áhættuflokkinn í hættu (EN) samkvæmt forsendum A4b í viðmiðum IUCN. Er það breyting frá fyrra válistamati frá október 2018 þegar landselur var metinn í áhættuflokkinn í bráðri hættu (CR).

EN A4 jafngildir staðfesta eða áætlaða fækkun í stofni um ≥50% á þremur kynslóðum þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa hugsanlega ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati og ályktun samkvæmt (b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni (IUCN).

Global position

Landselir eru útbreiddir og algengir á flestum útbreiðslusvæðum sínum. Heildarstofn tegundarinnar er metinn um 600 þúsund dýr og eru engar vísbendingar um stórfellda fækkun. Tegundin flokkast því sem ekki í hættu (LC) á heimslista IUCN. Íslenski stofninn er rétt ríflega 1,5% af heildarstofni tegundarinnar.

Threats

Ýmsar mögulegar skýringar eru á fækkun í landselsstofninum við Ísland. Hefðbundnar netveiðar á landsel (vorkópaveiðar) hafa að mestu lagst af en töluvert er enn veitt af landsel í kringum árósa til að lágmarka meint áhrif sela á laxastofna. Hjáveiðar (aðallega í grásleppunet og þorskanet) og beinar veiðar hafa verið taldar helstu ástæður fækkunar landsela hér við land. Aðrir þættir sem geta haft áhrif á fækkunina eru fæðuskortur, umhverfisbreytingar, truflun, mengun og sjúkdómar. Ofangreind atriði þyrfti þó að rannsaka betur til að hægt sé að skýra fækkunina til hlítar.

Protection

Landselir nutu til skamms tíma afar lítillar verndar hér á landi en ákvæði um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994 ná ekki til sela (eða hvala). Grunnlög um selveiðar eru Tilskipun um veiði á Íslandi frá 1849, með breytingum frá 1990, sem leggja bann við skotveiðum á landsel eða útsel á fjörðum eða víkum þar sem látur eru eða lagnir, nær en 900 metra frá þeim. Selir á Breiðafirði eru verndaðir gegn skotveiðum með sérlögum um selaskot á Breiðafirði og uppidráp, nr. 30/1925. Lög nr. 29/1937 kveða hins vegar á um útrýmingu sela úr Húnaósi. Í lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði eru ákvæði um ófriðun sels í 11. gr. laganna, þar sem m.a. er heimilt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að ófriða selalátur í eða við það veiðivatn eða fiskihverfi. Árið 2019 var bætt við ákvæði í sömu lagagrein þar sem ráðherra getur með reglugerð sett reglur um selveiðar, m.a. um skráningu selveiða og að banna eða takmarka selveiðar á íslensku forráðasvæði ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar. Reglugerð um bann við selveiðum nr. 1100/2019 var sett þann 11. desember 2019 og tók þegar gildi. Samkvæmt þeirri reglugerð eru allar selveiðar óheimilar á íslensku forráðasvæði (sjó, ám og vötnum) nema að fengnu sérstöku leyfi frá Fiskistofu. Aðeins skal veita leyfi til veiða til eins árs í senn  og aðeins til eigin nytja. Halda skal skrá um sókn og afla og skila skýrslu um veiðina.

Images

References

Andersen L., Lydersen C., Frie A.K., Rosing-Asvid A., Hauksson E. og K.M. Kovacs (2011). A population on the edge: genetic diversity and population structure of the world’s northernmost harbour seals (Phoca vitulina). Biological Journal of the Linnean Society, 102: 420-439.  

Erlingur Hauksson, Valur Bogason og Droplaug Ólafsdóttir (2004). Landselur. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk Spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavík, bls. 116-123.

Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir, Erlingur Hauksson, Guðmundur Guðmundsson og Ester Rut Unnsteinsdóttir (2018). Selalátur við strendur Íslands. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 56. 20 s. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_56.pdf

Jóhann Garðar Þorbjörnsson, Erlingur Hauksson, Guðjón Már Sigurðsson og Sandra Magdalena Granquist (2017). Aerial census of the Icelandic harbour seal (Phoca vitulina) population in 2016: Population estimate, trends and current status / Landselstalning 2016: Stofnstærðarmat, sveiflur og ástand stofns. Haf- og Vatnarannsóknir / Marine and Freshwater research in Iceland. HV 2017-009. ISSN 2298-9137

Lowry, L. (2016). Phoca vitulina. The IUCN Red List of Threatened Species 2016: e.T17013A45229114. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2016-1.RLTS.T17013A45229114.en

Menja von Schmalensee, Kristinn H. Skarphéðinsson, Hildur Vésteinsdóttir, Tómas G. Gunnarsson, Páll Hersteinsson, Auður L. Arnþórsdóttir, Hólmfríður Arnardóttir og Sigmar B. Hauksson (2013). Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Lagaleg og stjórnsýsluleg staða og tillögur um úrbætur. Skýrsla unnin fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra. 350+xi bls. ásamt viðaukum.

Sandra M. Granquist (2016). Ecology, tourism and management of harbour seals (Phoca vitulina). Dissertation, Stockholm University, Stockholm.

Sandra M. Granquist (2021). The Icelandic harbour seal (Phoca vitulina): Population estimate in 2020, summary of trends and the current status. Skýrsla Hafrannsóknastofnunar HV 2021-53. ISSN 2297-9137. Hafnarfjörður, nóvember 2021. https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/the-icelandic-harbour-seal-phoca-vitulina-population-estimate-in-2020-summary-of-trends-and-the-current-status-hv-2021-53

Sandra Magdalena Granquist og Erlingur Hauksson (2019). Population estimate, trends and current status of the Icelandic harbour seal (Phoca vitulina) population in 2018 / Landselstalning 2018: Stofnstærðarmat, sveiflur og ástand stofns. Skýrsla Hafrannsóknastofnunar nr. 9090. https://www.hafogvatn.is/static/files/hv2019-36.pdf

Author

Ester Rut Unnsteinsdóttir september 2018, október 2019, janúar 2020, desember 2021.

Biota

Tegund (Species)
Landselur (Phoca vitulina)

English Summary

The Phoca vitulina population in Iceland was estimated 9.434 (CI 95% = 6.149‐12.726) individuals in 2018, corresponding to 72% decline since 1980 when the population was estimated to be 33.000 individuals (no estimates before 1980). An estimated, projected decline for full three generations (1980–2025) match up to 77,5% decline. With reference to the wide 95% Confidence limits, this is compatible to the IUCN criteria of CR A4b: An observed, estimated, inferred, projected or suspected population reduction where the time period must include both the past and the future, and where the causes of reduction may not have ceased OR may not be understood OR may not be reversible. Based on (b) an index of abundance appropriate to the taxon (IUCN).